Mikil óvissa um Ísland

John Lipsky, aðstoðarforstjóri Alþjóðagjaldeyrissjósins.
John Lipsky, aðstoðarforstjóri Alþjóðagjaldeyrissjósins. Reuters

Framkvæmdastjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins segir í yfirlýsingu, sem gefin var út í nótt eftir að lánveiting til Íslands var samþykkt, að Íslendingar muni glíma við erfiðleika og áætlun, sú sem gerð var um efnahagsuppbyggingu, sé háð afar mikilli óvissu og áhættu sem endurspegli hið fordæmalausa hrun íslenska bankakerfisins.

„Með þetta í huga hafa stjórnvöld einsett sér að viðhalda ákveðinni stefnu en eru einnig reiðubúin að bregðast við, ef kringumstæður breytast, í náinni samvinnu við sjóðinn.

Á sama tíma eru horfur Íslands til lengri tíma áfram jákvæðar vegna sterkra undirstaðna vel menntaðs vinnuafls, jákvæðs fjárfestingaumhverfis og auðugra náttúruauðlinda," segir John Lipsky, aðstoðarforstjóri gjaldeyrissjóðsins í tilkynningu. 

Þar kemur m.a. fram, að gert er ráð fyrir 9,6% samdrætti vergrar landsframleiðslu á næsta ári og 5,7% atvinnuleysi. Reiknað er með að skuldir ríkisins verði 108,9% af landsframleiðslu á þessu ári og 108,6% á því næsta. Á hinn bóginn er gert ráð fyrir að 10,3% afgangur verði af vöruskiptum á næsta ári og að viðskiptajöfnuður verði jákvæður um 1% af landsframleiðslu en halli hefur verið á viðskiptum við útlönd í mörg ár.

Yfirlýsing IMF

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert