Persson: Allir verða að bera byrðarnar

Göran Persson, fyrrverandi forsætisráðherra Svíþjóðar.
Göran Persson, fyrrverandi forsætisráðherra Svíþjóðar. mbl.is/Árni Sæberg

Göran Persson, fyrrverandi forsætisráðherra Svíþjóðar, segir að þrátt fyrir að fáir hafi í raun skapað þau vandræði sem íslenska þjóðin glími nú við þá þurfi allir landsmenn á endanum að greiða fyrir þær skuldir sem hafi safnast upp vegna ástandsins. „Allir verða að bera byrðarnar,“ segir hann.

Þetta kallast á við þá aðgerðir íslenskra stjórnvalda sem boðuðu skattahækkanir í morgun, en gert er ráð fyrir að tekjuskattur hækki um 1 prósentu, úr 22,75% í 23,75% auk heimildar til hækkunar á útsvari. 

„Það er hægt að segja að þeir sem hafa í raun og veru skapað þetta neyðarástand, séu fáir. A.m.k. ekki mjög margir. En það er öll þjóðin sem verður að greiða fyrir lausn vandans,“ sagði Persson í erindi sínu sem hann flutti í Háskóla Íslands í gær.

Hann segir að Íslendingar muni fljótt verða varir við umræður þar fólk segi að þetta sé óréttlátt. Hann tekur dæmi af 77 ára gömlum ellilífeyrisþega sem lýsir yfir ónægju með 10% lífeyrisskerðingu. Á sama tíma sjái hann aðra kaupa hluti og lifa góðu lífi annars staðar.

„Það er gríðarlega mikilvægt að fá eins mikið frá þeim sem sköpuðu vandann. Og það er einnig afar mikilvægt að dreifa byrðunum á meðal þjóðarinnar, svo þið getið varið þetta sem sanngjarnt,“ segir Persson.

„Þetta mun aldrei vera auðvelt. Þeir sem eru sterkari munu eiga örlítið auðveldara með að bera byrðarnar heldur en þeir sem eru veikir. Allir verða að bera byrðarnar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert