Hópur mótmælenda veittist að Jóni Ásgeiri Jóhannessyni í miðborg Reykjavíkur um kl.13 í dag. Að sögn lögreglunnar í Reykjavík var um lítið upphlaup að ræða, Jón Ásgeir hafi verið á leið út af 101 Hotel á Hverfisgötu þegar hópur mótmælenda kom auga á hann og veittist að honum með hrópum og köllum.
Mótmælendur tóku sér stöðu í anddyri hótelsins og var kallað til lögreglu til að vísa þeim þaðan út. Enginn var tekinn höndum og féllust mótmælendur á að yfirgefa hótelið eftir samtal við lögreglu án teljandi vandræða.
Jón Ásgeir var staddur á landinu í dag ásamt Malcolm Walker, forstjóra Iceland verslunarkeðjunnar í Bretlandi en þeir áttu fund með skilanefnd Landsbankans.