Mótmælendum ógnað á gamlársdag

Árni Þór Sigmundsson aðstoðaryfirlögregluþjónn segir að lögreglan hafi verið óviðbúin jafn harkalegum mótmælum og urðu á Hótel Borg á gamlársdag. Hann segir að piparúði sé lágmarksstig valdbeitingar hjá lögreglu. Enn hafi ekki þurft að beita kylfum sem sé næsta stig þar fyrir ofan. Óhjákvæmilegt hafi verið að beita piparúða á Hótel Borg þar sem fólk hafi meiðst í átökum og eldhætta hafi verið mikil.

Lögreglan hefur einnig verið gagnrýnd fyrir að ganga ekki nógu harkalega fram en Árni Þór segir lögregluna ekki taka afstöðu með einum eða neinum. Hennar hlutverk sé einungis að halda uppi lögum og reglu.

Árni Þór segir að rannsókn á atburðunum á gamlársdag standi yfir og að öllum líkindum verði einhverjir ákærðir fyrir að kasta steini í andlit lögreglumanns með þeim afleiðingum að hann kinnbeinsbrotnaði og valda skemmdum á hurð á Hótel Borg og útsendingarbúnaði Stöðvar 2.

En Það vakti athygli á gamlársdag að tveir menn gengu um meðal mótmælenda og ógnuðu þeim eins og sést í myndskeiði Mbl sjónvarps. Árni Þór segir alvanalegt að það komi upp átök milli ólíkra hópa þegar ástand skapist eins og nú sé uppi. Lögreglan gæti allt eins þurft að verja þá mótmælendur sem nú hafi sig mest í frammi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert