Milljarðalán skömmu fyrir hrun

mbl.is

„Þetta snýst um að minnsta kosti 280 milljarða króna sem lánaðir voru til Robert Tchenguiz frá september 2007 fram að falli bankanna í október síðastliðnum. En meðan á lánveitingunum stóð féll gengi í félagi Tchenguiz, Mitchell's & Butler's, mjög hratt,“ segir Kristinn Hrafnsson fréttamaður um efni síðasta Kompásþáttarins. Þátturinn kom aldrei til sýningar á Stöð 2 þar sem hann var lagður niður og starfsmönnum sagt upp. Vitað er að Tchenguiz var um tíma viðskiptafélagi Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, aðaleiganda 365 miðla.

Síðasta lánið til Tchenguiz var, samkvæmt heimildum Kristins, upp á 10 milljarða króna þann 3. október síðastliðinn, aðeins nokkrum dögum fyrir bankahrunið.

Kristinn segir að samkvæmt sínum heimildum hafi lánareglur innan Kaupþings verið þverbrotnar, þó svo að lánin hafi verið veitt með vitund lánanefndar bankans.

Mati á eignum sem lá til grundvallar veði virðist hafa verið mjög ábótavant og í þeim tilfellum sem reglur voru brotnar hafi verið allt að 115-120% umfram veðgildi eigna sem lágu til grundvallar.

Öll lánin, upp á 280 milljarða króna, hafi farið í gegnum félag sem Tchenguiz rekur og er með aðsetur á bresku Jómfrúreyjum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert