Mótmæla í Mývatnssveit

Efnt verður til mótmæla og samstöðufundar í Mývatnssveit á morgun. Þeim sem að mótmælunum hafa staðið í Mývatnssveit, fannst rétt að safnast saman enn á ný og láta af sér vita. Þótt áfangasigrar hafi unnist, sé ekki öllum kröfum mótmælenda fullnægt.

Í tilkynningu hópsins segir að þar sem unnið sé að stofnun nýrrar ríkisstjórnar og fleiri málum sé rétt að staldra við og sjá hverju fram vindur.

„Þemað okkar að þessu sinni er þess vegna að tendra vonarneista í eigin brjósti, kveikja á friðarkerti með þessum neista og senda von og frið til þjóðfélagsins alls,“ segir í tilkynningunni.

Mótmælin fara sem fyrr fram á Hallarflöt í Dimmuborgum og hefjast klukkan 15 á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert