Stjórnarskrárbreyting ekki brýn

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra sagði á fundi sjálfstæðismanna á Grand hótel að hann væri þeirrar skoðunar að breytingar á stjórnarskrá væri ekki brýnt verkefni. Umræður um slíkt bæri vott um að menn vildu hlaupast frá umræðum um mikinn vanda í efnahagsmálum. Björn sagðist líta sömu augum umræður um Evrópumál. Önnur mál væru brýnni.

Björn sagði að Alþingi væri öflug stofnun. Þingið gæti vel nýtt styrk sinn til að koma fram vilja sínum. Það þyrfti ekki að gera breytingar á stjórnarskrá til að efla það. Björn minnti á breytingar sem gerðar voru á Alþingi fyrir nokkrum árum þar sem þingdeildir voru sameinaðar í eina deild. Hann sagði að þingmenn kæmu mikið að því að breyta löggjöf. Ekki væri rétt að framkvæmdavaldið kæmi þannig fram að það væri einhver niðurlæging fyrir þingið. Alþingi væri öflug stofnun.

Björn sagði að þegar umræður stóðu yfir um fjölmiðlalögin hefði komi í ljós að mjög mikill ágreiningur væri milli flokkanna um hvernig ætti að framkvæma breytingar um þjóðaratkvæðagreiðslur.Björn sagði athyglisvert að þegar kæmi að því að finna mann til að taka við embætti dómsmálaráðherra þá treystu VG og Samfylking engum til að taka við embættinu úr eigin röðum og því þyrfti að leita út fyrir þingið. Hann sagðist fagna því að hægt væri að finna í landinu einhvern sem væri hæfur til að gegn embættinu þó hann væri ekki að finna í þingflokkum stjórnarflokkanna.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert