Kaup á vændi verði refsivert

Til stendur að breyta almennum hegningarlögum þannig að kaup á …
Til stendur að breyta almennum hegningarlögum þannig að kaup á vændi verði gert refsivert. mbl.is/Árni Torfason

Í nýrri aðgerðaáætlun gegn mansali, sem ríkisstjórn Íslands samþykkti í dag, eru lagðar til aðgerðir sem miða að því að sækja gerendur til saka, auka aðstoð við þolendur og tryggja vernd þeirra. Þá stendur til að breyta almennum hegningarlögum þannig að kaup á vændi verði gert refsivert.

Einnig á að girða fyrir undanþágumöguleika í lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald fyrir nektarstaði þannig að lögin banni alfarið starfsemi nektarstaða. Þá verða siðareglur settar fyrir Stjórnarráðið og opinberar stofnanir sem fela í sér skýlaust bann við kaupum á kynlífsþjónustu. 

Ásta R. Jóhannesdóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, kynnti aðgerðaáætlunina á blaðamannafundi í dag.

Ásta segist fagna aðgerðaáætluninni „að með henni sé langþráðum áfanga náð í baráttunni gegn mansali á Íslandi. Mansal sé eitt andstyggilegasta form skipulagðar alþjóðlegrar glæpastarfsemi og miklu skiptir að koma lögum yfir þá sem það stunda og veita fórnarlömbum þess vernd og aðstoð. Skilaboð stjórnvalda eru skýr, hér verður mansal ekki liðið,“ segir í fréttatilkynningu.

Þar segir jafnframt að aðgerðaáætlun stjórnvalda sé ætlað að efla baráttuna gegn mansali á Íslandi með ýmsu móti. Í henni sé miðað að því að fullgilda alþjóðlega samninga um alþjóðlega glæpastarfsemi og mansal sem íslensk stjórnvöld hafi undirritað. Tryggja eigi að fórnarlömbum mansals, þar á meðal börnum, sé veitt aukin aðstoð, öruggt skjól og vernd með því meðal annars að setja á fót sérfræðiteymi sem hafi yfirumsjón yfir málaflokknum. Lagt verði fram frumvarp sem tryggi fórnarlömbum mansals tímabundið dvalarleyfi á meðan þau geri upp hug sinn um framtíðardvalarstað. Á þeim tíma verði fórnarlömbunum tryggt öruggt skjól og fjárhagsleg og félagsleg aðstoð.

Að sögn Ástu Ragnheiðar er gert ráð fyrir að frumvarpið verði samþykkt fyrir þinglok.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert