Rís fyrsta græna kapalverksmiðja heimsins Íslandi?

Á næstu árum er ætlunin að hér á landi rísi fyrsta græna kapalverksmiðjan í heiminum sem framleiða mun, til notkunar innanlands en þó einkum til útflutnings, háspennukapla og sæstrengi og nota til þess rafmagn og ál sem hvoru tveggja er framleitt á Íslandi. Að þessu stendur íslenskt fyrirtæki, The North Pole Wire.

Samkvæmt upplýsingum Friðriks Þ. Guðmundssonar, fjölmiðlafulltrúa fyrirtækisins, er hér um að ræða grænan hátækniiðnað og mun kapalverksmiðja þessi veita á bilinu 300 til 500 manns vinnu þegar hún nær fullum afköstum og ámóta fjölda starfsmanna þarf til að reisa verksmiðjuna.

„The North Pole Wire vill skapa hér eitt öflugusta útflutningsfyrirtæki landsins byggt á innviðum hins íslenska atvinnulífs. The North Pole Wire vill „rísa eins og fuglinn Fönix“ upp úr öskunni og reisa á Íslandi fyrstu og einu kapalverksmiðjuna í heiminum sem framleiðir kapla með grænni orku. Ráðgert er að verksmiðjan rísi á næstu 3-4 árum, þar af tekur fyrsti áfangi 1-2 ár – en allt er þetta háð því til verkefnisins fáist tilskilin leyfi,“ segir í tilkynningu frá fyrirtækinu.

Staðsetning verksmiðjunnar hefur ekki enn verið ákveðin, en ýmis landsvæði hafa verið skoðuð og sum teljast mjög vænleg, að sögn.

Stofnendahópur The North Pole Wire er innanlands í umsjá Verkfræðistofu FHG (Friðriks Hansen Guðmundssonar verkfræðings), „en að baki verkefninu eru öflugir erlendir aðilar, sem ekki er að sinni tímabært að greina nánar frá – en rétt að taka fram að þeir hafa ekki áður komið að starfsemi á Íslandi,“ segir í tilkynningunni.

Auk áætlana um að reisa verksmiðjuna á Íslandi kemur fram að þessir aðilar hafi átt í viðræðum við erlenda kaupendur, enda hafi verkefnið verið lengi í undirbúningi. „Ef vel tekst til mun kapalframleiðslan á Íslandi ýta mjög undir að allar nýjar rafmagnslínur fari í jörð, sem og endurnýjum á eldri línum og gera lagningu sæstrengja til annarra landa fýsilega.“

Aðstandendur fyrirtækisins segja að markaður fyrir jarð- og sæstrengi muni vaxa mjög á komandi árum og áratugum. „Í dag er þessi framleiðsla að velta um 4 til 5 milljörðum bandaríkjadala á ári. Gert er ráð fyrir að þessi velta verði eftir 10 ár 40 til 50 milljarðar Bandaríkjadala. The North Pole Wire vill vera þáttakandi í þessari þróun. Í samstarfi við erlenda samstarfsaðila okkar þá viljum við, eftir 2 til 3 ár, vera komin í gang með fyrsta áfangann af slíkri kapalverksmiðju sem mun geta framleitt allar helstu gerðir hefðbundinna rafmagnskapla og strengja. Annar áfangi yrði framleiðsla á ljósleiðurum og sæstrengjum.“ Þriðji áfangi yrði þáttaka í þróun og framleiðsla á háhraða rafmagnsköplum einhvern tíma síðar.

Verksmiðjan, miðað við áfanga þrjú, er sögð þurfa 25 MW af orku og upplýst er að hún muni velta um helmingnum af veltu íslenska áliðnaðarins. „Verði þriðji áfangi að veruleika þá gæti framleiðsla á köplum orðið ein af stærstu úrflutningsgreinum Íslands.“

Bent er á að álframleiðsla sé mikil á Íslandi og hér sé hægt að kaupa ál á heimsmarkaðsverði beint frá framleiðendum. Innkaupsverð og flutningskostnaður á áli frá framleiðenda til verksmiðjunnar yrði því í algjöru lágmarki. 

Fyrirtækið The North Pole Wire hefur óskað eftir beinum styrk frá Íslenska ríkinu, sem er hugsaður sem táknrænn stuðningur „og gerir okkur kleyft að sækja til rannsóknarsjóða austan hafs og vestan. Styrkur frá Íslenska ríkinu myndi opna félaginu dyr að margfalt hærri styrkjum til væntanlegrar rannsóknar- og þróunardeildar. Óskað er eftir styrk til tveggja til þriggja ára til að greiða laun 15-20 íslenskra tæknimanna sem munu vera í starfsþjálfun hjá The North Pole Wire í þessi þrjú ár, hér heima og erlendis og taka þátt í starfi rannsóknar- og þróunardeildar fyrirtækisins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert