Selja húsbúnað úr gömlu bönkunum

Eyjólfur Pálsson með stól úr eigu banka.
Eyjólfur Pálsson með stól úr eigu banka. mbl.is/Kristinn

Skilanefndir gömlu bankanna hafa ákveðið að ráðast í sölu á húsbúnaði og tækjum úr aðsetrum bankanna erlendis. Meðal muna á sölulista eru húsgögn, ljósakrónur og jafnvel stöku eldhústæki sem voru í notkun á kaffistofum og matsölum starfsmanna.  Listaverkasöfn gömlu bankanna eru þó ekki meðal sölumuna enda tilheyra þau núna nýju bankastofnununum og þar með íslenska ríkinu.

„Allajafna myndi varla taka því að selja stöku húsgögn þrotabúa upp í skuldir en hér er í mörgum tilfellum um að ræða muni sem voru í raun fjárfestingar á sínum tíma,“ segir Eyjólfur Pálsson, kenndur við Epal, sem hefur verið skilanefndunum innan handar við undirbúning sölunnar.

Hann segir um gæðabúnað að ræða. „Ég þekki margar þessara vara úr eigin verslun, s.s. „Eggið“ og „Sjöuna“ eftir Arne Jacobson, hillur frá Montana og lampa frá Louis Poulsen. Og mér sýnist þetta ótrúlega vel farið þrátt fyrir að hafa verið notað í einhvern tíma.“

Upphaflega var gert ráð fyrir að selja búnaðinn til fárra kaupenda og einfalda þannig ferlið. „Hins vegar þótti sýnt að þar sem búnaðurinn er notaður fengist sáralítið fyrir hann þar sem kaupendurnir myndu þá krefjast of mikilla magnafslátta,“ segir Eyjólfur. Í staðinn hafi verið ákveðið að leyfa almenningi að njóta þess ríflega afsláttar sem verður á búnaðinum. Verður hann því seldur næstu daga í húsnæði BT í Skeifunni en salan hefst í dag kl. 10.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert