Brutu þau bankaleynd?

Fjármálaeftirlitið telur að tveir blaðamenn Morgunblaðsins, Agnes Bragadóttir og Þorbjörn Þórðarson, hafi brotið þagnarskyldu samkvæmt 58. gr. laga um fjármálafyrirtæki. Blaðamennirnir birtu í greinum sínum upplýsingar úr lánabók Kaupþings banka hf. annars vegar og Glitnis hf. hins vegar, m.a. um lán til eigenda bankanna og tengdra aðila.

Brot Agnesar Bragadóttur að mati FME tengist grein hennar „Sjónarspil og sýndarleikir Glitnis og FL“ sem birtist í Morgunblaðinu 23. nóvember 2008 og fjallaði m.a. um félagið Stím ehf. Þar var m.a. vitnað í gögn úr lánabókum Glitnis.

Viðurlögin sekt eða fangelsi

FME telur Þorbjörn Þórðarson hafa brotið gegn lögunum með greininni „500 milljarðar til eigenda“ sem birtist í Morgunblaðinu 7. mars síðastliðinn en þar var vitnað í lánabók Kaupþings.

Í bréfi til blaðamannanna frá FME segir að stofnunin geti lagt stjórnvaldssektir á þá sem gerist brotlegir við 58. gr laga um fjármálafyrirtæki. „Sektir sem lagðar eru á einstaklinga geta numið frá kr. 10 þúsund til kr. 20 milljónir. Þá getur það varðað sektum eða fangelsi allt að tveimur árum [...] Fjármálaeftirlitið metur hvort mál skuli kært til lögreglu eða því lokið með stjórnvaldsákvörðun hjá stofnuninni,“ segir í bréfinu. Reynist brot meiriháttar beri FME að vísa þeim til lögreglu en viðurlögum sé beitt óháð því hvort lögbrot eru framin af ásetningi eða gáleysi.

Blaðamennirnir hafa frest til 8. apríl nk. til að koma á framfæri andmælum, skýringum eða sjónarmiðum áður en FME tekur ákvörðun um framhald málsins.

Í hnotskurn
» Skv. 58 grein laga um fjármálafyrirtæki eru starfsmenn þeirra bundnir þagnarskyldu um allt sem þeir fá vitneskju um í starfi og lýtur að viðskipta- eða einkamálefnum viðskiptamanna.
» „Sá sem veitir viðtöku upplýsingum af því tagi [...] er bundinn þagnarskyldu með sama hætti og þar greinir. Sá aðili sem veitir upplýsingar skal áminna viðtakanda um þagnarskylduna,“ segir í greininni.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert