Annað hvort njóta allir friðar eða enginn

Bjarni Benediktsson, fyrrverandi forsætisráðherra.
Bjarni Benediktsson, fyrrverandi forsætisráðherra. mbl.is/Ólafur K. Magnússon

Í dag eru liðin 60 ár frá inngöngu Íslands í Atlantshafsbandalagið. Í tilefni af því fjallar Pétur Blöndal um aðdragandann að þeirri örlagaríku ákvörðun í sunnudagsblaðinu á morgun, með því að lesa sig í gegnum skjalasafn Bjarna Benediktssonar, þáverandi utanríkisráðherra. Er þar meðal annars vitnað í minnisblöð, bréf og ræður frá þessum tíma og hefur sumt af því aldrei birst áður.
 
Í ræðu sem Bjarni flutti við undirskrift Atlantshafssáttmálans segir meðal annars: „En það er einnig margt sem sameinar okkur traustum böndum. Sama hættan ógnar okkur öllum í þeim heimi sem við lifum, þar sem fjarlægðirnar eru horfnar, er það áreiðanlegt, að annaðhvort njóta allir friðar - eða enginn. Sömu upplausnaröflin eru hvarvetna að sinni ömurlegu iðju. Allsstaðar ásaka þau okkur, sem erum að vinna fyrir friðinn, um að við viljum spilla honum. Þegar samningur þessi var ræddur á Alþingi Íslendinga, reyndu þessi öfl með valdi að hindra hina fornhelgu stofnun í starfi sínu. Slíkt ofbeldi hefir aldrei fyrr verið reynt gegn hinu þúsund ára gamli Alþingi Íslendinga. Sá afvegaleiddi hópur, sem þetta reyndi, þóttist með köllum sínum vera að heimta frið. Þetta framferði, að kasta grjóti með höndunum en hrópa á frið með vörunum, er hvorki í samræmi við arfleifð Íslendinga né vestræna menningu. Allir vitum við, hvar slíkir hættir eiga upptök sín. Heiminum stafar sannarlega ekki meiri hætta nú af öðru en þessu hugarfari.“

Og hann klykkti út með: „En það er ekki aðeins þessi ógnun við heimsfriðinn og velferð mannkynsins, sem sameinar okkur. Það er heldur ekki einungis það, að lönd okkar eru öll í sama heimshluta. Sterkari bönd tengja okkur saman. Allir tilheyrum við sömu menningunni, allir mundum við fremur kjósa að missa lífið en frelsið, hvort heldur frelsi sjálfra okkar eða þjóða okkar. Allir trúum við á vinsamlega samvinnu þjóða í milli - allir óskum við heiminum friðar og mannkyninu velfarnaðar.
Þess vegna hittumst við hér í dag með góðar vonir í brjósti til að tengjast tryggðaböndum með undirskrift þessa samnings.“

Hér geta lesendur nálgast upptöku af ræðu Bjarna frá undirskrift stofnsáttmálans í Washington 4. apríl 1949.
 
Hér fyrir neðan í viðhengi má heyra upptöku af ræðu, sem hann las inn á band fyrir ritarann sinn árið 1969, en þá voru 20 ár liðin frá stofnfundinum. Þar yfirvegar hann hvort inngangan í Atlantshafsbandalagið hafi verið skynsamleg ákvörðun.
 
Loks má nálgast upplýsingar um Bjarna Benediktsson á vef sem tileinkaður er honum og er veffangið: bjarnibenediktsson.is

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert