Bubbi er sleginn

Bubbi Morthens.
Bubbi Morthens. mbl.is/Ómar

„Ég er sleginn,“ segir tónlistarmaðurinn Bubbi Morthens spurður út í yfirstandandi spillingarmál og efnahagsglundroða.

„Ég er sleginn yfir því að stjórnvöld ætli að láta almenning blæða. Það er greinilegt að yfirvöld ætla að bjarga bönkunum og bakka þá upp í því að knésetja fólkið. Af hverju fá fyrirtæki fyrirgreiðslu en almenningur ekki? Auðvitað gapir maður,“ segir Bubbi og finnst undarlegt að talað sé um spillingu í sambandi við nýlegar fréttir af styrkveitingum. „Það er undarlegt að það sé talað um spillingu þar, miðað við bankadæmið. Þar var um heilu milljarðana að ræða. Þetta er eins og túskildingur með gati við hliðina á því!“

Bubbi Morthens hefur skipulagða tónleikaferð um landið á morgun og byrjar á Norður- og Austurlandi en fyrstu tónleikarnir eru í Dalvíkurkirkju annað kvöld. Spurður hvort hann eigi von á meiri titringi á landsbyggðinni vegna yfirstandandi árferðis segir Bubbi landsbyggðina búna að vera í frjálsu falli í tuttugu ár. „Ég hef verið að syngja um þetta í mörg ár. Sjáðu t.d. lagið „Aldrei fór ég suður“, sem er fyrsta stóra lagið mitt um hrunið úti á landi. Landsbyggðin hefur átt alveg gríðarlega erfitt og hefur verið að glíma við vandamálin hér á suðvesturhorninu í áratugi. Fólksflótti, fyrirtækjaflótti, kvótinn horfinn, aflabrestur og svo má telja,“ segir Bubbi sem kveðst þó ekki ætla sér að vera með neinn bölmóð á komandi tónleikum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert