Lánið væntanlegt eftir fund AGS

Steingrímur J. Sigfússon.
Steingrímur J. Sigfússon. Ómar Óskarsson

Þegar stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins tekur endurskoðunarskýrslu vegna Íslands fyrir skv. sinni vinnuáætlun er þess að vænta að næsta greiðsla af láni sjóðsins verði afgreidd. Þetta sagði Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra við upphaf þingfundar í morgun.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, spurði fjármálaráðherra um skýringar á töfum sem orðið hefðu á því að önnur greiðsla á láni Alþjóðagjaldeyrissjóðsins bærist. Sagði hann hugsanlegt að tafirnar væru ein af orsökum þess hvað gengi krónunnar hefur lækkað að undanförnu. Bjarni gagnrýndi einnig þær tafir sem orðið hefðu á tímasettri áætlun ríkisstjórnarinnar á afnámi gjaldeyrishafta.

Steingrímur sagði að talsmaður AGS hefði fyrir viku síðan lokið lofsorði á vinnu íslenskra stjórnvalda. „Það stóð aldrei til að næsti skammtur lánsins yrði afgreiddur fyrr en stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins væri búin að taka endurskoðunarskýrsluna fyrr og gefa grænt ljós á hana,“ sagði Steingrímur.

Steingrímur sagði einnig að vinna við gjaldeyrismálin og vanda vegna jöklabréfanna væri forgangsmál hjá Seðlabankanum. „Ég vænti þess að þess verði ekki langt að bíða að menn fái af því fréttir hver verða næstu skref í því máli. Mögulega nú á ársfundi Seðlabankans í eftirmiðdaginn,“ sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert