Vísindakynning á Landspítala hófst í dag

Nú er vísindakynning á Landspítalanum.
Nú er vísindakynning á Landspítalanum. Ómar Óskarsson

Erna Sif Arnardóttir, líffræðingur og doktorsnemi, er ungur vísindamaður Landspítala árið 2009. Heiðursvísindamaður ársins er Rósa Björk Barkardóttir sameindalíffræðingur. Þetta var tilkynnt á árlegri vísindakynningu Landspítalans, „Vísindi á vordögum“, sem hófst í dag.

Heiti doktorsverkefnis Ernu Sifjar er „Genatjáning og bólgusvörun í kæfisvefni og við svefnsviptingu“. Markmið þess er að rannsaka tvo hópa. Annars vegar fólk með ómeðhöndlaðan kæfisvefn og hins vegar heilbrigt fólk sem haldið er vakandi í meira en sólarhring. Vísindalegt gildi þessarar rannsóknar er að skilja betur þær breytingar sem verða í líkamanum vegna kæfisvefns og svefnsviptingar.

Markverðustu vísindaniðurstöður Rósu Bjarkar Barkardóttur og samstarfsfólks hennar tengjast brjóstakrabbameini og meðfæddri áhættu til myndunar meinsins. Þau taka þátt í alþjóðlegu samstarfi um leit og einangrun brjóstakrabbameinsgena, sem hafa m.a. leitt til einangrunar brjóstakrabbameinsgenanna BRCA1 og BRCA2.

Undanfarin ár hefur Rósa Björk veitt forstöðu einingu sem sér um sameindameinafræðilegar þjónusturannsóknir á sýnum frá krabbameinssjúklingum og sameindaerfðafræðilegar vísindarannsóknir á  krabbameini í brjóstum og blöðruhálskirtli. Árið 2005 hlaut Rósa Björk nafnbótina klínískur prófessor við læknadeild Háskóla Íslands.

Árleg kynning á vísindastarfsemi á Landspítala, "Vísindi á vordögum 2009", verður 29. apríl til 7. maí og eru allir velkomnir. Í K-byggingu verður þessa daga sýning þar sem um 350 vísindamenn á Landspítala og samstarfsmenn þeirra kynna á rúmlega 100 veggspjöldum niðurstöður rannsókna sinna.

Dagana 4., 5. og 6. maí verða stuttir hádegisfyrirlestrar í K-byggingu þar sem veggspjaldahöfundar fjallar um rannsóknir sínar. Á veggspjaldasýningunni er meðal annars fjallað um faraldsfræði mænuskaða í slysum á Íslandi, notkun heilarita til greiningar á athyglisbresti með ofvirkni hjá börnum, lyfjanotkun á hjúkrunarheimilum á Íslandi, gæði meðferðar við hjartaáfall á Íslandi og í Svíþjóð og áhrif tveggja vikna meðferðar í Bláa lóninu á psoriasis.

Í Hringsal verður 29. apríl dagskrá frá kl. 13:00 til 16:30 þar sem verður meðal annars tilkynnt um heiðursvísindamann ársins á Landspítala og ungan vísindamann ársins.  Úthlutað verður styrkjum úr Vísindasjóði LSH.   Ávörp flytja menntamálaráðherra og heilbrigðisráðherra og gestafyrirlestur flytur Vilmundur Guðnason forstöðulæknir Hjartaverndar.  Fyrirlesturinn nefnist "Notkun segulómunar af heila í faraldsfræði - Öldrunarrannsókn Hjartaverndar".

Erna Sif Arnardóttir líffræðingur.
Erna Sif Arnardóttir líffræðingur.
Rósa Björk Barkardóttir sameindalíffræðingur.
Rósa Björk Barkardóttir sameindalíffræðingur.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert