Annars konar Hydroxycut hér á landi

Hydroxycut er mikið notað hér á landi og í tengslum …
Hydroxycut er mikið notað hér á landi og í tengslum við líkamsrækt. Morgunblaðið/ Árni Sæberg

Umboðsaðili Hydroxycut hér á landi segir í tilkynningu að efnið sem selt er á Íslandi hafi fengið samþykki Lyfjastofnunar, Matvælastofnunar og Hollustuverndar ríkisins. Þar sé um að ræða efni sem sérstaklega er framleitt fyrir Evrópumarkað, hafi aðeins fengist í Evrópu og sé fullkomlega hættulaust.

Svavar Jóhannsson, framkvæmdastjóri Fitnesssport og umboðsaðili Hydroxycut á Íslandi, segir að efnið sem innkallað var í Bandaríkjunum sé ætlað keppnisfólki í líkamsrækt og hefur í raun aldrei fengist samþykkt hjá lyfjaeftirliti Bandaríkjanna. Varan sé á engan hátt sambærileg við Hydroxycut efnið sem selt er í verslunum hér á landi og hefur fengið öll tilskilin leyfi.

„Það eru miklu strangari reglur í Evrópu en í Bandaríkjunum. Þess vegna hafa þessar vörur aldrei fengist hér. Sérstaklega ekki þetta Hydroxycut Hardcore sem þeir telja að sé valdurinn að þessu veseni. Það hefur aldrei verið selt hér og um aldrei fást.

Í Evrópu þarf að sækja um öll leyfi áður en vara er sett á markað. Sanna þarf að hún sé hættulaus. Í Bandaríkjunum er þessu öfugt farið. Þar setja menn vöru á markað og svo er það hlutverk lyfjaeftirlitsins að sanna að hún sé hættuleg. Það er oft hægt að selja vörur í mörg ár áður en lyfjaeftirlitið bannar þær,“ segir Svavar.

Svavar segir efnið sem fáist í Evrópu mun vægari en þau sem voru á markaði í Bandaríkjunum. Og ekkert bendi til þess að efnin hafi valdið hjartsláttatruflunum hjá einstaklingum hér á landi.

„Það er ekkert í Hydroxycut sem getur valdið hjartakvillum nema kannski koffín, og í fjórum Hydroxycut töflum, sem er dagskammtur, er jafn mikið koffín og í einum kaffibolla,“ segir Svavar. Hann tekur þó fram að ef efnið er notað vitlaust geti það leitt til aukaverkana, líkt og ef drukkið er of mikið kaffi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert