Segir túlkun formanns VR aðra en stjórnarmanna

Ragnar Þór Ingólfsson, stjórnarmaður í VR, segir í yfirlýsingu að Kristinn Örn Jóhannesson, formaður félagsins, virðist túlka samþykkt stjórnarinnar, um að leggja fram tillögu á ársfundi Lífeyrissjóðs verzlunarmann um að launaþak verði sett á æðstu stjórnendur sjóðsins, með öðrum hætti en aðrir stjórnarmenn.

Ragnar Þór sagði í viðtali við mbl.is í dag hafa lagt þessa tillögu fram á stjórnarfundi í vikunni og hún hefði verið samþykkt samhljóða. Kristinn Örn sendi í kjölfarið frá sér yfirlýsingu þar sem hann segir að stjórn VR hafi ekki samþykkt neina tillögu sem slíka en verið efnislega sammála um að beina þeim tilmælum til stjórnar Lífeyrissjóðs verzlunarmanna að kjör framkvæmdastjóra tækju mið af kjörum forsætisráðherra.

„Hvað veldur þessum gríðarlega sterku viðbrögðum Kristins á túlkunaratriði hvernig þetta hafi verið sett fram? Það breytir ekki niðurstöðunni að mikill meirihluti stjórnar, eða allir eins og ég stóð í meiningu um, samþykkti tillögu mína, að leggja fram sameiginlega tillögu um launaþak á stjórnendur lífeyrissjóðsins. Mér var falið að fá sérfræðiálit á málinu svo það yrði sett fram með réttum og öruggum hætti á fundinum," segir Ragnar Þór m.a. í yfrlýsingunni.

„Þegar ég tók málið upp á fundi lýsti ég því yfir að ég ætlaði með málið með eða án stjórnar á ársfund sjóðsins og gaf því stjórn félagsins kost á að styðja málið með því að fara með það fyrir ársfundinn sem heild og var það samþykkt samhljóma," segir Ragnar Þór ennfremur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert