Mál Milestone og Sjóvár til rannsóknar

Höfuðstöðvar Sjóvár.
Höfuðstöðvar Sjóvár.

Fjármálaeftirlitið (FME) hefur vísað málum sem varða samskipti Sjóvár og Milestone, eiganda félagsins til skamms tíma, til viðeigandi embættis innan stjórnsýslunnar vegna gruns um að refsiverð háttsemi hafi átt sér þar stað.

FME getur vísað málum sem þessum annaðhvort til embættis sérstaks saksóknara eða efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra.

Rannsóknin sem nú stendur yfir snýr að stjórnum og stjórnendum Sjóvár og Milestone. Á meðal þess sem verið er að skoða er hvort aðkoma þeirra að fjárfestingum Sjóvár varði mögulega við lög.

Enginn enn yfirheyrður

Enn sem komið er hefur enginn verið yfirheyrður né fengið stöðu grunaðs manns. Gagnaöflun, byggð á upplýsingum frá FME, er þó í fullum gangi, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins. Viðkomandi embætti tekur síðan ákvörðun um hvort tilefni sé til frekari rannsóknar.

Mál Sjóvár og Milestone er eitt tíu mála sem FME hefur sent frá sér til rannsóknaraðila í kjölfar bankahrunsins.

Eins og Morgunblaðið hefur áður greint frá, er Sjóvá meðal annars í vanda vegna eigna, sem eigandinn Milestone setti inn í félagið á móti viðskiptaskuld, sem til varð í tengslum við kaup Milestone á Moderna í Svíþjóð. Eignirnar hafa rýrnað mikið í verði. Tíu milljarða vantar upp á að félagið uppfylli lágmarkskröfur um gjaldþol.

Samkvæmt upplýsingum frá FME verður Sjóvá áfram undir sértæku eftirliti „þar til ákvörðun verður tekin um annað“.

Breyttist í fjárfestingafélag

Eftir að Milestone, fyrrum eigandi Sjóvár, keypti félagið breyttist það úr hefðbundnu vátryggingafélagi í fjárfestingafélag.

Milestone eignaðist Sjóvá að fullu 2006. Það ár tvöföldust eignir félagsins, ekki síst vegna aukningar fjárfestingaeigna sem voru fasteignir víðsvegar um heim. Skuldir hækkuðu einnig. Bótasjóðurinn stækkaði hins vegar lítið þannig að vátryggingastarfsemi hefur ekki vaxið mikið. Sama þróun varð á árinu 2007. Ekki hafa verið birtir opinberlega reikningar fyrir árið 2008. Í lok árs 2007 voru fjárfestingaeignir Sjóvár orðnar tæpir 50 milljarðar króna.

 
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert