Athugasemd frá Háskóla Íslands

Háskóli Íslands hefur sent frá sér athugasemdar vegna  fréttar í Morgunblaðinu 20. maí um Forleifastofnun Íslands.

„Er rétt að fram komi að Háskóla Íslands barst bréf frá menntamálaráðuneytinu 7. apríl sl. þar sem athygli Háskólans er vakin á tilteknu máli sem varðar sjálfseignarstofnunina Fornleifastofnun Íslands. Með bréfi ráðuneytisins fylgdu bréf og gögn sem ráðuneytinu hafði borist frá Framkvæmdasýslu ríkisins, en tveir af starfsmönnum Háskólans tengjast Fornleifastofnun.

Háskólinn hafði áður fengið í hendur umrædd gögn frá Framkvæmdasýslunni. Rétt er að taka fram að engin formleg tengsl eru á milli Háskóla Íslands og Fornleifastofnunar. Gögn Framkvæmdasýslunnar fela í sér ábendingar um að tilgreindir starfsmenn Háskólans kunni að hafa sýnt framkomu eða háttsemi sem ekki sé í samræmi við starfsskyldur þeirra sem kennara við skólann.

Mál þetta er til alvarlegrar skoðunar innan skólans að því marki sem það lýtur að honum. Verið er að afla upplýsinga frá þeim starfsmönnum Háskólans sem nefndir eru í gögnum frá Framkvæmdasýslunni og rætt hefur verið við nemanda skólans sem nefndur er í gögnunum.

Þegar athugun málsins er lokið verður gripið til viðeigandi aðgerða af hálfu Háskólans ef tilefni verður til. Í frétt Morgunblaðsins er sagt að Adolf Friðriksson sé prófessor við Háskóla Íslands. Það er ekki rétt. Hann var stundakennari í fornleifafræði við skólann, síðast árið 2007. Orri Vésteinsson gegnir hins vegar starfi dósents við Háskólann."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert