Fornleifastofnun vísar ásökunum á bug

Fornleifastofnun Íslands vísar á bug ásökunum forstjóra Framkvæmdasýslu ríkisins um meinta misnotkun á markaðsráðandi stöðu og aðra vafasama viðskiptahætti,“ segir í yfirlýsingu frá Adolf Friðrikssyni, sem barst blaðinu í gærkvöldi.

„Svo virðist sem umfjöllun Morgunblaðsins um meint brot FSÍ á samkeppnislögum og ásakanir um siðferðilega hæpnar starfsaðferðir sé byggð á bréfi forstjóra Framkvæmdasýslu ríkisins til ýmissa aðila innan stjórnsýslunnar. Fornleifastofnun voru ekki kynntar þessar bréfasendingar og hefur því ekki haft tækifæri til að gera grein fyrir sinni hlið málsins gagnvart þeim aðilum sem bréfið var sent.

Framkvæmdasýsla ríkisins setti fram alvarlegar ásakanir á hendur FSÍ í bréfi til stofnunarinnar síðastliðið vor. Beiðni FSÍ um skýringar á málatilbúnaði Framkvæmdasýslunnar ásamt upplýsingum um réttarstöðu stofnunarinnar, hefur enn ekki verið svarað. Í umfjöllun Morgunblaðsins kemur enda fram að forstjóri Framkvæmdasýslunnar hafi ákveðið að svara ekki beiðninni – í trássi við skyldur sínar samkvæmt stjórnsýslulögum. Forstjórinn lét auk þess undir höfuð leggjast að gera viðeigandi stjórnvöldum, þ.e. Samkeppniseftirlitinu, grein fyrir grunsemdum sínum svo rétt og sanngjörn málsmeðferð mætti hefjast þar sem FSÍ nyti þeirrar réttarverndar sem stjórnsýslureglur gera ráð fyrir. Þess í stað kaus forstjóri Framkvæmdasýslunnar að senda túlkun sína á málinu í bréfi til ýmissa aðila innan stjórnsýslunnar, en í bréfinu fléttar hann saman óskyldum málum, eigin hugleiðingum, og vafasömum ályktunum. Þessar hugrenningar hafa nú verið birtar athugasemdalaust í fjölmiðlum, og án þess að öðrum málsaðilum, sem undir þungum ásökunum liggja, hafi verið gefinn kostur á að tjá sig eða leiðrétta rangfærslurnar.

FSÍ harmar að opinber embættismaður beri út óhróður um starfsfólk hennar og vegi að heiðri stofnunarinnar og erlends háskóla. Samkeppniseftirlitið hefur nú tekið Alþingisreitsmálið til skoðunar og fagnar Fornleifastofnun því að það mál sé þar með komið í réttan farveg.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert