Óþarfar áhyggjur ríkisstjórnarinnar

Samtök atvinnulífsins
Samtök atvinnulífsins

„Skoðun okkar er að þessir fyrirvarar séu sprottnir af óþarfa áhyggjum,“ segir Guðrún Björk Bjarnadóttir, lögmaður hjá Samtökum atvinnulífsins, um fyrirvara ríkisstjórnarinnar við þjónustutilskipun ESB. Í fyrsta lagi áskilur ríkisstjórnin sér rétt til að reka alla almannaþjónustu áfram eftir sínu höfði.
Guðrún Björk segir engin önnur ríki en Noreg hafa sett slíka fyrirvara og þá til að sætta pólitískar deilur um tilskipunina þar í landi.

„Aðalatriðið eru ekki þessir fyrirvarar núna, heldur hvort þeir hafi áhrif á innleiðingu tilskipunarinnar í íslensk lög. Það verður áhugavert að sjá hvort þeir breyti innleiðingunni og þeim lögum sem fyrirhugað er að setja í kjölfarið.“ Verði almannaþjónusta skilgreind öðruvísi í íslenskum lögum en annars staðar, .þá komist íslensk stjórnvöld ekki upp með það. „Það er eitthvað sem Eftirlitsstofnun EFTA myndi skoða,“ segir hún.

Hitt skilyrði ríkisstjórnarinnar er að réttindi á íslenskum vinnumarkaði haldist. „Ég held það gæti ákveðins misskilnings um að þjónustutilskipunin fjalli eitthvað um vinnurétt. Hún gerir það ekki,“ segir Guðrún Björk. Tilskipunin felli niður hindranir fyrir þá sem veita þjónustu yfir landamæri, en taki ekkert á því hvaða réttindi og skyldur gildi á vinnumarkaði.

„Þeir þjónustuveitendur sem ætla sér að veita þjónustu á Íslandi yrðu alltaf bundnir af lögum um útsenda starfsmenn, sem tryggja að þeir sem hingað koma til að veita þjónustu fái greitt samkvæmt íslenskum kjarasamningum og að þeir verði skráðir hjá Vinnumálastofnun. Ef í ljós kemur að menn reyni að fara framhjá því mun Vinnumálstofnun hafa eftirlit með því,“ segir hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert