Ná þarf sátt um stjórn fiskveiða

Jón Bjarnason sjávarútvegsráðherra.
Jón Bjarnason sjávarútvegsráðherra. mbl.is/Kristinn

Sjávarútvegsráðherra vill gera breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu. Hann segir að annað væri í hrópandi ósamræmi við öll skilaboð sem berast frá þjóðinni. Jón Bjarnason sjávarútvegsráðherra hefur ákveðið að skipa starfshóp sem mun hafa það verkefni að skilgreina álitamál sem uppi eru varðandi stjórn fiskveiða og nýtingu auðlindarinnar. Aðild að hópnum eiga fulltrúar stjórnar og stjórnarandstöðu á Alþingi og hagsmunaaðilar í sjávarútvegi og ætlast ráðherra til þess að hópurinn kalli jafnframt eftir rökum og greinargerðum frá fleiri aðilum gerist þess þörf. Miðað er við að hópurinn ljúki störfum 1. nóvember næstkomandi.

Góð rekstrarskilyrði

„Þarna fá allir hlutaðeigandi aðilar tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri og ég treysti þessum hópi til að vinna af heilindum og komast að sameiginlegri niðurstöðu. Ég er ekki að biðja um margar álitsgerðir frá hópnum, heldur eina heildarniðurstöðu. Hópurinn á að hafa það að leiðarljósi að greininni verði sköpuð góð rekstrarskilyrði og að fiskveiðar verði stundaðar á sjálfbæran hátt,“ segir ráðherra.

Starfshópurinn mun einnig fá það verkefni að koma á sátt meðal þjóðarinnar um stjórn fiskveiða.

„Umræðan eins og hún hefur birst undanfarið sýnir að engin sátt er um stjórn fiskveiða meðal þjóðarinnar. Það er staðreynd sem allir verða að viðurkenna. Sjávarútvegurinn er höfuðatvinnuvegur þjóðarinnar og einn af hornsteinum okkar samfélagsgerðar. Fyrir vikið er brýnt að sátt ríki um hann,“ segir Jón.

Gert er ráð fyrir því í stjórnarsáttmálanum að kalla inn aflaheimildir í áföngum. Hvað gerist komist starfshópurinn að þeirri niðurstöðu að það sé ekki heppileg leið?

„Það er verkefni hópsins að fara yfir þessi mál í heild sinni. Komist hann að þeirri niðurstöðu að einhverjar ákveðnar leiðir séu ófærar verður það að sjálfsögðu skoðað mjög vandlega.“

Eru stjórnarflokkarnir samstiga í þessu máli?

„Það er full sátt um að málið fari í þennan farveg.“

Í máli útgerðarmanna í Morgunblaðinu í síðustu viku komu fram áhyggjur af því að breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu gætu haft slæmar afleiðingar fyrir landsbyggðina. Deilirðu þeim áhyggjum?

„Ég hef áhyggjur af stöðu landsbyggðarinnar almennt, ekki síst hinna ýmsu sjávarbyggða sem hafa mátt horfa upp á sitt lífsviðurværi flytjast burt. Sjónarmið íbúa í þessum byggðum, sem hafa átt þátt í því að gera auðlindina jafn verðmæta og hún er, eiga að sjálfsögðu að heyrast og starfshópurinn mun sjá til þess.“

Skuldastaða sjávarútvegsins er erfið. Kemur til álita að færa skuldir niður í samræmi við niðurfærslu á veiðiheimildum?

„Það er allt annað mál. Núna erum við fyrst og fremst að horfa á tilhögun fiskveiðistjórnunarinnar. Skuldastaðan er víða erfið og við verðum að skoða það mál í heild sinni. Efnahagskerfið sem hér var rekið leiddi til hruns síðastliðið haust og þar verða allir að skoða sinn hlut að máli. Enginn er undanskilinn.“

Hvernig leggjast áform um strandveiðar í þig?

„Vel. Enda þótt þetta sé í smáum stíl er um að ræða tímamótaopnun á veiðum og stefnumörkun um að byggðirnar sem búa að grunnslóðunum hafi forgang. Markmiðið er að gefa mönnum tækifæri til að sækja sjó án þess að vera njörvaðir niður.“

Það hefur verið gagnrýnt að strandveiðar opni leið fyrir þá sem búnir voru að selja sig út úr greininni inn aftur. Þeir muni þá jafnvel róa til fiskjar við hlið þeirra sem keyptu veiðiheimildirnar af þeim.

„Það er hægt að gagnrýna öll kerfi en ég minni á að með þessu eru menn ekki að afla sér neinnar veiðireynslu. Verði lögin samþykkt, sem ég vona, verður þetta gert til bráðabirgða og við munum meta eftir 1. september hvernig til hefur tekist.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert