Aðild Íslands sett í forgang

Carl Bildt, utanríkisráðherra Svíþjóðar.
Carl Bildt, utanríkisráðherra Svíþjóðar. Reuters

Svíar munu að líkindum ganga til þjóðaratkvæðagreiðslu um evruna á næsta kjörtímabili eða frá og með haustinu 2010, að sögn Carl Bildt, utanríkisráðherra Svíþjóðar. Svíar taka við formennsku í Evrópusambandinu í júlí og boðar Bildt að þeir muni setja mögulega aðild Íslands að sambandinu í forgang.

- Með hvaða hætti hyggjast Svíar styðja við hugsanlega aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu þegar þið takið við formennsku í sambandinu í júlí?

„Það þarf ekki að taka fram að við myndum fagna aðildarumsókn Íslendinga. Við álítum að Íslendingar gætu lagt sitt mörkum til þróunar sambandsins, svo ekki sé minnst á þann stöðugleika sem aðild myndi færa Íslendingum.

Það sem við munum gera þegar umsóknin hefur verið lögð til okkar er að leggja hana fram fyrir framkvæmdastjórnina eins fljótt og kostur er svo hún geti hafið þá vinnu sem nauðsynleg er fyrir hana til að geta tekið ákvörðun um samningaviðræður,“ sagði Bildt og vék svo að hlutverki formennskuríkisins.

„Við munum augljóslega þurfa að sannfæra öll aðildarríkin 27. Sú vinna mun fela í sér önnur mál. Við munum einnig hafa á borði okkar aðildarumsóknir annarra ríkja, á borð við Albaníu.

Við myndum hins vegar af ýmsum ástæðum setja afgreiðslu á aðildarumsókn Íslendinga í forgang vegna aðildar landsins að EES-samningnum.“

Stækkunarþreyta þarf ekki að vera til trafala

- Tekurðu undir það sjónarmið Alexander Stubb, utanríkisráðherra Finnlands, að stækkunarþreyta innan sambandsins gæti orðið til að seinka umsóknarferlinu?

„Það gæti reynst hindrun sem ég álít þó ekki óyfirstíganlega. Ég lít einnig svo á að stækkunarþreytan eigi ekki jafn mikið við Ísland því það er ekki hægt að setja spurningamerki við stöðu lýðræðisins í landinu.

Ísland býr þrátt fyrir efnahagsþrengingarnar við þroskað hagkerfi og er auk þess aðili að EES-samningnum. Með því hefur Ísland lokið þremur fjórðu hluta vegferðarinnar að samrunanum við Evrópu,“ segir Bildt og vísar til hlutfalls þeirra lagabálka aðildarsamningsins sem þegar er búið að samþykkja með samningnum að Evrópska efnahagssvæðinu.

- Telurðu því góðar líkur á að Ísland fái aðild að sambandinu?

„Já, svo sannarlega. Það er enginn efi í huga mér varðandi það. Ef þetta er vilji Íslands þá mun þetta verða að veruleika. Við munu taka tveggja ára erfiðar samningaviðræður eins og hefð er fyrir.“

Þjóðaratkvæðagreiðsla á næsta kjörtímabili

- Fredrik Reinfeldt, forsætisráðherra og leiðtogi stjórnar þinnar, hefur gefið í skyn í viðtölum við Morgunblaðið að líkur séu á að Svíar gangi til þjóðaratkvæðagreiðslu um evruna um miðjan næsta áratug. Telurðu líkur á að þetta gangi eftir?

„Það verður efnt til þingkosninga í Svíþjóð í september á næsta ári. Að kosningunum loknum held ég að evruumræðan fari á nýtt stig. Mín persónulega skoðun er sú að efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu á næsta kjörtímabili.“

- Má skilja svar þitt sem svo að þú eigir von á því að Svíar taki upp evruna á fyrri helmingi næsta áratugar?

„Ég óska þess að svo verði. Fyrst þurfum við að ganga að kjörborðinu og efna til umræðu á meðal allra flokka um hvenær þjóðaratkvæðagreiðsla geti farið fram og svo loks þurfum við vitaskuld að vinna sigur í þessari sömu atkvæðagreiðslu.“

Verkefnalistinn er langur

Inntur eftir því hvaða mál Svíar muni setja á oddinn í formennskutíð sinni í Evrópusambandinu segir Bildt að huga þurfi að mörgu.

„Það er ýmislegt sem þarf að hafa í huga í kjölfar nýafstaðinna kosninga til Evrópuþingsins. Við höfum nýja framkvæmdastjórn, nýja einstaklinga í embættum og þurfum að takast á við þær breytingar sem verða samfara umskiptunum frá Nice-sáttmálanum yfir til Lissabon-sáttmálans, mál sem ég tel að muni verða fyrirferðamest.

Þá þurfum við að undirbúa viðræður á vettvangi stjórnmálanna vegna loftslagsráðstefnunnar í Kaupmannahöfn í desember og takast á við afleiðingar efnahagshrunsins. Svo bíður okkar langur listi af áskorunum á sviði utanríkismála.“

Bildt bætti því svo við að lokum að aðildarumsóknir annarra ríkja kynnu að hafa áhrif á tímaramma mögulegrar umsóknar Íslands að Evrópusambandinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert