Gagnrýni tekin alvarlega

Eva Joly og Ragna Árnadóttir þegar skrifað var undir samning …
Eva Joly og Ragna Árnadóttir þegar skrifað var undir samning við Joly í mars. mbl.is/Ómar

„Þetta er gagnrýni sem við verðum að taka alvarlega,“ segir Ragna Árnadóttir dómsmálaráðherra um ummæli Evu Joly, ráðgjafa sérstaks saksóknara, í Kastljósinu í gærkvöld.

Þar sagði Joly m.a. að hún vildi ekki leggja nafn sitt við rannsóknina yrði umgjörð hennar ekki bætt, og gefa fólki þannig falskar hugmyndir um að hún væri í lagi.

Joly gagnrýndi harðlega að Valtýr Sigurðsson ríkissaksóknari sæti enn en hann væri vanhæfur þar sem sonur hans er annar tveggja forstjóra Exista. Í gær tilkynnti Ragna um að Valtýr hefði sjálfur ákveðið fyrir nokkru að víkja sæti í öllum málum er varðar bankahrunið vegna þessa og að hún hygðist skipa Björn Bergsson í hans stað í þeim málum.

Joly sagði hins vegar í þættinum í gær að hún teldi ekki nægjanlegt að Valtýr viki að hluta. „Ríkissaksóknari er æðsti handhafi ákæruvaldsins og hann ákveður hvort hann er vanhæfur eða ekki. Það er ekki ég sem get ákveðið það,“ segir Ragna um þetta. Spurð hvort Valtýr hafi verið beðinn um að víkja að fullu segist hún þurfa að skoða málið betur.

Fimm sinnum stærra en Elf málið

Í þættinum lýsti Joly rannsókninni sem mikilvægustu rannsókn allra tíma í Evrópu. Hún væri fimm sinnum mikilvægari en rannsóknin sem hún stýrði á Elf málinu svokallaða, einu stærsta spillingarmáli í Evrópu á síðari tímum. Engar líkur væru þó á að árangur næðist ef umfang embættis sérstaks saksóknara væri ekki stækkað. „Þá munum við enda uppi með einhver leyst mál en það er mikilvægt að ná heildarmyndinni.“

Fjölga þyrfti lögfræðingum úr fimm í tíu auk þess sem þörf væri á að fá endurskoðendur til starfa fyrir embættið. Hún vill að skipaðir verði þrír sjálfstæðir saksóknarar til að rannsaka þau mál sem tengjast hverjum banka fyrir sig.

Joly sagðist hafa áætlað að þrjár milljónir evra þyrfti árlega til rannsóknarinnar en embættið hefði einungis fengið þriðjung þeirrar upphæðar. Yrði ekki úr því bætt væru litlar líkur á að með rannsókninni fengist heildarmyndin upp á borðið.

„Það gengur ekki. Auðvitað verður rannsóknin að vera með fullnægjandi hætti,“ segir Ragna og að málið þurfi að taka upp í ríkisstjórn. „Ég tel að undir núverandi aðstæðum í ríkisfjármálunum sé erfitt að fara fram með slíkar bónir, en auðvitað fagna ég því ef ríkisstjórnin tekur slíka ákvörðun.“

Auki líkur á að ná földu fé

Hún tekur undir að rannsóknin þurfi að hafa forgang. „Við getum ekki frestað henni og það er auðvitað algjört forgangsatriði að hún sé með fullnægjandi hætti og gott betur.“

Ragna bætir því við að Joly bendi á ákveðna þætti sem þurfi að laga. „Ég hef fulla trú á að það verði hægt. Mín afstaða er sú að vandamálin eru til að leysa þau.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert