Tugir launakrafna í farvatninu

mbl.is

Tugir fyrrverandi starfsmanna gömlu bankanna, sem fóru á hausinn, undirbúa nú kröfur á hendur þrotabúum bankanna vegna vangoldinna launa.

Starfsfólkið telur sig eiga inni árangurstengdar greiðslur og greiðslur vegna lengri uppsagnarfrests en kveðið er á um í kjarasamningum bankamanna. Framkvæmdastjóri stéttarfélags starfsmanna telur víst að höfða þurfi prófmál til viðurkenningar kröfunum.

Kröfurnar beinast m.a. að þrotabúum Landsbankans, Glitnis, Kaupþings og Straums. Reynt er að samræma vinnu við kröfugerðina, enda um áþekk ákvæði í ráðningarsamningum starfsmanna að ræða.

„Lögmaður félagsins er að útbúa kröfur á hendur þrotabúum gömlu bankanna vegna launa, annarra en skilgreindra launa samkvæmt kjarasamningi. Þarna er um að ræða árangurstengingar sem margir starfsmenn gömlu bankanna unnu eftir allt árið en áttu að fá uppgjör einu sinni á ári. Þetta á t.d. við um þá sem nær eingöngu sinntu tryggingasölu á vegum gömlu ríkisbankanna. Þeir áttu að fá uppgjör vegna árangurstenginga í október eða nóvember, um það leyti sem bankarnir hrundu. Þá höfðu allnokkrir starfsmenn samið um lengri uppsagnarfrest en kjarasamningur kveður á um. Það á einkum við um þá starfsmenn sem farnir voru að nálgast eftirlaunaaldur,“ segir Friðbert Traustason, framkvæmdastjóri Samtaka starfsfólks fjármálafyrirtækja.

Slitastjórnir gömlu bankanna segja umræddar kröfur ekki forgangskröfur og því sé ekki hægt að greiða kröfurnar. Stéttarfélag bankastarfsmanna er á öðru máli og segir kröfurnar hluta af umsömdum kjörum viðkomandi starfsmanna og þar með sé um launakröfur að ræða sem njóta eigi forgangs.

Framkvæmdastjóri stéttarfélags starfsmanna segir illskiljanlegt að hægt sé að taka hluta kjara úr ráðningarsamningi og undanskilja þá með þessum hætti.

„Við erum ekki að tala um kaupréttarákvæði eða milljóna kröfur í hverju tilviki fyrir sig. Þetta eru kröfur sem snúast um hluta af launakjörum almennra starfsmanna, starfsfólks á gólfinu en ekki æðstu stjórnenda eða millistjórnenda. Mál þeirra koma ekki inn á okkar borð,“ segir Friðbert Traustason.

Hann segir nær öruggt að slitastjórnir muni hafna öllum kröfunum en kröfufundir verði væntanlega boðaðir í haust. Friðbert segir að farið verði alla leið með málið.

„Verði þessu hafnað þá verður farið í prófmál, það liggur fyrir,“ segir Friðbert Traustason, framkvæmdastjóri Samtaka starfsfólks fjármálafyrirtækja.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert