Ísland fær enga sérmeðferð

Olli Rehn
Olli Rehn FRANCOIS LENOIR

Olli Rehn, stækkunarstjóri Evrópusambandsins, segir að Ísland fái enga flýtimeðferð inn í sambandið en ekki megi gleyma því að Ísland hafi þegar tekið upp stærstan hluta reglna ESB. Hann fagnaði á sama tíma umsókn Íslendinga. Þetta kom fram á blaðamannafundi í Brussel í dag en utanríkisráðherrar ríkja ESB funda nú þar í borg.

Rehn hrósaði Svíum, sem fara með forsæti í ESB, fyrir að hafa afgreitt umsókn Íslands með skilvirkum hætti. Hann sagði að sem gamall Norðurlandasinni teldi hann norrænu lýðræðisríkin öll eiga heima í Evrópusambandinu. 

Rehn og Cecilia Malmström, ráðherra Evrópumála í Svíþjóð, tóku fram á blaðamannafundinum að ríki á Balkanskaganum sem hafa sótt um aðild að ESB verði ekki sett aftur fyrir Ísland en það sem skýri tafir á afgreiðslu umsóknar Albaníu sé stjórnmálaástandið í landinu og að umsókn þeirra verði afgreidd um leið og búið er að mynda þar ríkisstjórn.

Fram kom í máli Malmström að einhver af aðildarríkjum ESB hefðu látið í ljósi áhyggjur af að Albanía og önnur ríki á vestanverðum Balkanskaganum yrðu látin mæta afgangi. Rehn, Malmström og Carl Bildt, utanríkisráðherra Svíþjóðar, ítrekuðu hins vegar að unnið yrði áfram með Balkanríkjunum að því að búa þau undir ESB-aðild.

Spurt var á blaðamannafundinum hvort Svíar vonuðust til að álit framkvæmdastjórnarinnar lægi fyrir í forsetatíð þeirra, þ.e. fyrir áramót. Ennfremur var Olli Rehn spurður hversu langan tíma það tæki fyrir framkvæmdastjórnina að útbúa álitsgerðina.

Carl Bildt vísaði spurningunni til Olli Rehn. Hann sagði að aðalatriðið væri að álit framkvæmdastjórnarinnar yrði „gæðavara". Nú þegar ráðherraráðið hefði beðið um álit framkvæmdastjórnarinnar á umsókn Íslands yrði byrjað fljótt að vinna í málinu. „Það verður hlutlæg vinna og byggð á staðreyndum. Hún mun taka þann tíma, sem nauðsynlegt er að gefa verkinu," sagði Rehn.

Rehn var spurður út í það hvernig það horfði fyrir umsókn Íslands hve naumur meirihluti hafi verið fyrir því að sækja um aðild að ESB á Alþingi.  Að sögn Rehn er naumur meirihluti á þingi fyrir umsókn að ESB ekkert nýtt, það sama hafi gerst á finnska þinginu á sínum tíma, málið hafi verið viðkvæmt og umdeilt. Finnland hafi engu að síður lokið aðildarsamningum við ESB, sem sýni að hægt sé að finna lausnir á viðkvæmum málum.

Að sögn Rehn fullnægir Ísland nú þegar öllum lýðræðislegum skilgreiningum ESB. Landið er einnig aðili að Evrópska efnahagssvæðinu og að minnsta kosti tveir þriðju af löggjöf ESB séu því þegar í gildi á Íslandi. Hins vegar sé ekki endilega hægt að draga þá ályktun af því um mikilvægi þeirrar löggjafar, sem Ísland hafi þegar tekið upp. Búast megi við að aðild að myntbandalagi Evrópu ásamt sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum eigi eftir að skipta miklu í aðildarviðræðum.

Carl Bildt bætti því við að það hefði tekið Svíþjóð, Finnland og Noreg skemmri tíma að semja um aðild að ESB en um aðild að EES-samningnum. Á það bæri hins vegar að líta að hvorki Finnland né Svíþjóð ættu mikilla hagsmuna að gæta í sjávarútvegi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert