Áform um orkuskatt endurskoðuð

Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon.
Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon. mbl.is/Golli

Forsætisráðherra og fjármálaráðherra hafa fyrir hönd ríkisstjórnarinnar sent frá sér yfirlýsingu um framgang stöðugleikasáttmálans frá 25. júní sl. Kemur þar meðal annars fram, að áform um nýja skatta, sem tengjast orku-, auðlinda- og umhverfismálum, verði tekin til endurskoðunar.

Í stað þeirrar skattheimtu sé að hluta til horft til þess að atvinnulífið taki á sig nauðsynlega hækkun á atvinnutryggingagjaldi eða aðra skattheimtu til að afla sömu heildarskatttekna.

Þá kemur fram, að ríkisstjórnin standi við fyrri heit sín um að greiða götu þegar ákveðinna og áformaðra stórframkvæmda á Suðurnesjum og í Straumsvík. Auk þess sé unnið að útboðum ýmissa vegaframkvæmda, viðhaldsverkefna og hafnaframkvæmda á vegum ríkisins.

Kapp verði lagt á atvinnusköpun og að greiða fyrir fjárfestingum í atvinnulífinu. Stjórnvöld muni hraða  úrvinnslu mála sem tengjast þegar ákveðnum og fyrirhuguðum stórframkvæmdum eftir því sem efni máls og lögbundnir lágmarkstímafrestir leyfi. Ríkisstjórninni sé ljóst, að mikilvægar ákvarðanir hjá viðkomandi fyrirtækjum um stórframkvæmdir séu framundan fyrir lok nóvembermánaðar.

Í yfirlýsinginni segir einnig, að engin breyting hafi orðið varðandi þann sáttafarveg sem endurskoðun fiskveiðistjórnunarinnar hafi verið sett í með skipun nefndar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í sumar, þar sem forsenda nefndarstarfsins sé að skapa sjávarútveginum góð rekstrarskilyrði til langs tíma.

Samtök atvinnulífsins hafa m.a. krafist þess að áform um fyrningar aflaheimilda og endurúthlutun þeirra verði lögð á hilluna.

Í yfirlýsingu oddvita stjórnarflokkanna segir, að gerð stöðugleikasáttmálans síðastliðið vor hafi verið sögulegur og sameiginlegur áfangi til að hefja endurreisn efnahagslífsins og auka tiltrú þjóðarinnar á framtíðina. Það sem þegar hafi áunnist við framfylgd sáttmálans gefi ótvírætt til kynna að það sé þjóðarnauðsyn að halda því verki áfram.  Þrátt fyrir skamman tíma og óvenjulegt ástand í þjóðfélaginu hafi árangur náðst á fjölmörgum sviðum frá því skrifað var undir sáttmálann í júní.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka