Lánshæfiseinkunn OR er komin í ruslflokk

Höfuðstöðvar Orkuveitu Reykjavíkur.
Höfuðstöðvar Orkuveitu Reykjavíkur. Ómar Óskarsson

Matsfyrirtækið Moody's hefur lækkað lánshæfiseinkunn Orkuveitu Reykjavíkur úr Baa1 í Ba1, sem þýðir að skuldabréf fyrirtækisins eru ekki lengur í svokölluðum fjárfestingarflokki heldur í því sem kallað er ruslflokkur. Fylgir lækkunin í kjölfarið á lækkun á einkunn ríkissjóðs í Baa3, sem er einum flokki yfir einkunn OR.

Segir í rökstuðningi Moody's að áframhaldandi veikt gengi krónunnar hafi gert skuldastöðu OR erfiðari, þar sem skuldir fyrirtækisins séu einkum í erlendri mynt, en tekjur þess í íslenskum krónum. Þá hafi eftirspurn eftir orku frá fyrirtækinu dregist saman vegna efnahagserfiðleikanna. Fyrir hafi Orkuveitan staðið höllum fæti fjárhagslega.

Veik lausafjárstaða

Þá leggur Moody's áherslu á að lausafjárstaða OR sé veik, en tekur þó fram að Orkuveitan segist munu geta fullnægt fjármögnunarþörfum sínum með innlendum lánum, auk lána annars staðar frá. Einnig telur Moody's líklegt að farið verði af stað með Hellisheiðarvirkjun, sem geti aukið tekjur OR í bandaríkjadölum og þar með auðveldað greiðslu erlendra lána.

Hvað varðar stuðning opinberra aðila við Orkuveituna, verði þörf á slíku, segir Moody's að gera megi ráð fyrir því að Reykjavíkurborg og íslenska ríkið muni gera sitt besta til að koma fyrirtækinu til hjálpar. Hins vegar verði að hafa í huga að vegna efnahagsörðugleikanna sé geta opinberra aðila til slíkra björgunaraðgerða töluvert minni en áður.

Guðlaugur G. Sverrisson, stjórnarformaður Orkuveitunnar, segir að fyrirtækið hafi fengið þær upplýsingar að opinber fyrirtæki séu alltaf einum flokki fyrir neðan viðkomandi ríki. „Við áttum því aldrei séns. Það eina sem við getum gert er að sýna fram á greiðsluflæði, lausafjárstöðu og að við stöndum við skuldbindingar okkar.“

Hann segir þau mál sem snúa að Orkuveitunni hafa verið í lagi, en fyrirtækið geti ekkert gert að því þótt lánshæfiseinkunn ríkisins lækki. Það sé hins vegar mjög alvarlegt mál að ríkið sé komið í þessa stöðu.

Ekki áhrif á eldri lán

Aðspurður hvort lakara lánshæfi hafi áhrif á eldri lán Orkuveitunnar, segist Guðlaugur ekki telja svo vera. Undir það tekur Anna Skúladóttir, fjármálastjóri OR. „Það eru engin skilyrði í lánasamningum Orkuveitunnar sem tengjast lánshæfi,“ segir hún. Guðlaugur segir hins vegar að gera megi ráð fyrir því að lægri einkunn geri fjármögnun töluvert erfiðari í framtíðinni.

Fyrr í mánuðinum var greint frá því að Evrópski fjárfestingarbankinn hefði samþykkt rúmlega 30 milljarða króna lán til Orkuveitunnar, vegna virkjana við Hverahlíð á Hellisheiði. Þau Guðlaugur og Anna segja lækkandi lánshæfi ekki heldur hafa áhrif á það lán.

„Skilaboðin þegar við tókum lánið frá EIB [Evrópska fjárfestingarbankanum] voru ósköp einföld,“ segir Guðlaugur. „Lánið er byggt algjörlega á mati þeirra á Orkuveitunni. Þeir eru með sitt eigið áhættumat og fara ekki eftir Moody's eða Fitch.“

Hærri kostnaður

Því lægri sem lánshæfiseinkunn fyrirtækis eða opinbers aðila er, því hærri er fjármögnunarkostnaður. Er það vegna þess að lægri einkunn er talin merki um að auknar líkur séu á því að útgefandi skuldabréfs muni ekki geta staðið í skilum. Ákveðnar tegundir fjárfesta vilja ekki eða mega ekki fjárfesta í öðrum skuldabréfum en þeim sem eru í fjárfestingarflokki. Falli lánshæfi í ruslflokk fækkar þeim sem veitt geta viðkomandi fyrirtæki lán og fjármögnunarkostnaður eykst til muna. 
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert