Líst illa á nýtt virðisaukakattsþrep

Vilhjálmur Egilsson.
Vilhjálmur Egilsson. mbl.is/Golli

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir fyrirhugaðar skattahækkanir ríkisstjórnarinnar ekki koma sérstaklega á óvart. „Umfangið er í takt við það sem við höfum verið að búast við,“ segir hann.

Vilhjálmur segir að með þessu sé ríkisstjórnin að tæma úr skattahækkunarpokanum, þ.e. varðandi það sem talað hafi verið um í stöðugleikasáttmálanum. 

Hann segir að SA hefði kosið að bæði virðisaukaskattsþrepin hefðu verið hækkuð í stað þess að búa til nýtt þrep. „Þetta milliþrep er okkur ekki að skapi og við höfum mótmælt því, en það var ekki hlustað á það,“ segir Vilhjálmur.

Hann tekur hins vegar fram að SA hafi verið að ná fram ákveðnum breytingum, sem snúi fyrst og fremst að því að vinda ofan af áformum um 16 milljarða kr. orku- og kolefnisgjöld. „Sem hefðu verið mjög skaðleg,“ segir Vilhjálmur og bætir við að þarna hafi náðst ákveðin málamiðlun sem reynt verði að vinna út frá.

Eitt stórt atriði standi hins vegar út af. Það verði að tryggja sjávarútveginum eðlileg starfsskilyrði. Það þýði ekki að hækka skatta á sjávarútveginn og á sama tíma vega að starfsskilyrðunum. Nú sé verið að leggja 3,5 milljarða kr. í hærri álögur á sjávarútveginn.

„Við teljum algjörlega ótækt að verið sé að hleypa öllu í uppnám í greininni, enn einu sinni, með þessu frumvarpi sjávarútvegsráðherra. Það er bæði þvert á það sem um var talað og málið í heild er eitt allsherjarfúsk,“ segir Vilhjálmur. Það séu t.d. engar forsendur fyrir þeirri ákvörðun ráðherra að hækka skötuselskvóta um 80% umfram ráðgjöf. „Þarna er beinlínis verið að taka ákvörðun um það að fiska þennan stofn niður,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert