Aðeins erlend skip á ferð

Arctic Princess er 288 metra langt gasflutningaskip sem siglir nú …
Arctic Princess er 288 metra langt gasflutningaskip sem siglir nú í gegnum íslenska efnahagslögsögu. Mynd/Landhelgisgæslan

Engin íslensk skip eru á ferð um íslensku efnahagslögsöguna yfir jólahátíðina. Þó eru ein 29 erlend skip á ferðinni um íslensku lögsöguna samkvæmt varðstjórum Landhelgisgæslunnar.

Þar á meðal er gasflutningaskipið Arctic Princess sem er rúmlega 288 metra langt, 49 metra breitt og 121,597 brúttótonn. Skipið sigldi fyrir Vestfirði um ellefuleytið í morgun og stímdi á 16 mílna hraða.

Arctic Princess er á leið til Cove Point í Bandaríkjunum með 146 þúsund rúmmetra af metangasi. Áætlað er að skipið nái áfangastað þann 4.janúar á nýju ári. Skipið sendi Landhelgisgæslunni flutningsskýrslu og upplýsingar um farm að beiðni gæslunnar.

Skipið er hannað til siglinga á norðurslóðum. Ekki hefur orðið vart við hafís á leið skipsins, en samkvæmt vef Veðurstofunnar var tilkynnt um ísspöng norðvestur af Barða sem rak í suðurátt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert