„Ótrúlegt ábyrgðarleysi og misnotkun á frelsinu"

Pétur Kr. Hafstein
Pétur Kr. Hafstein

„Við verðum að horfast í augu við þann veruleika um þessar mundir að samtíð okkar er þröngur stakkur skorinn. Ótrúlegt ábyrgðarleysi og misnotkun á frelsinu, öflugasta aflvaka allra framfara, hefur gert það að verkum að illilega hefur slegið í bakseglin í siglingu þjóðarskútunnar íslensku til framfara og bættra lífskjara," að því er segir í nýárspistli Péturs Kr. Hafstein, forseta kirkjuþings og fyrrverandi hæstaréttardómara.

Guðs gjöf að eiga til hnífs og skeiðar

Pétur segir í ávarpi sínu sem birt er á vefnum tru.is að það jafngildi þó ekki strandi. „Orð eru dýr og orðið kreppa er ekki endilega réttnefni þótt bankar og útrásarfyrirtæki hafi hrunið. Þótt margir hafi nú vindinn í fangið er enn langt frá því að Ísland sé á vonarvöl. Það er meira að segja vel aflögufært gagnvart þeim þjóðum, sem neyð og skortur þjakar í biturri mynd hversdagsins.

Það er Guðs gjöf að eiga til hnífs og skeiðar, gleymum því ekki. Þess vegna eigum við að taka nýju ári fagnandi og treysta Guði. Við eigum að treysta því að nýja árið beri í skauti sínu bjarta framtíð og betra samfélag en brotið hefur á skeri. Við megum ekki láta vonbrigði og vonleysi ná yfirtökum. Vonin verður að vera leiðarstjarna undir stefnumarki trúarinnar. Aðeins þannig tekst okkur að vera heillynd og vísa á bug þeirri hálfvelgju, sem Jónas Hallgrímsson varaði við. Við verðum að trúa því og treysta að framtíðin sé björt."

Sjá nýárspistil Péturs Kr. Hafstein í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert