Vakti undrun er hann skilaði ökuskírteininu

Helgi Pálmarsson
Helgi Pálmarsson mbl.is/Árni Sæberg

Ellilífeyrisþeginn og fyrrverandi verkamaðurinn Helgi Pálmarsson var á leiðinni suður úr Hafnarfirði þegar hann fann að hann hafði ekki þá stjórn á bíl sínum sem hann hefði kosið. „Ég varð dálítið hræddur við þetta og ákvað í kjölfarið að hætta að keyra,“ segir Helgi. Heilsufar sitt sé orðið lélegt og því telji hann ákvörðunina rétta.

Síðastliðinn miðvikudag skilaði Helgi síðan ökuskírteininu til Sýslumannsins í Kópavogi og kveðst líta á það sem eins konar afmælisgjöf til sjálfs sín. „Ég hef alltaf endurnýjað skírteinið en ákvað að gefa mér það í afmælisgjöf að þessu sinni að leggja það inn áður en ég yrði 76 ára.“

Afmælisdagur Helga er síðar í þessum mánuði og segir hann ákvörðun sína hafa vakið mikla og jákvæða athygli. „Ég er lengi búinn að vera félagi í FÍB og maðurinn sem ég ræddi við þar kvaðst aldrei hafa vitað til þess að nokkur maður væri svo heiðarlegur að skila ökuskírteininu af því að hann fyndi að hann gæti ekki keyrt.“ Lögreglumaður sem hann hitti á skrifstofu sýslumanns hafi ekki verið síður hrifinn.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert