Lína langsokkur í lífshlaupi

Sjö Línur langsokkar, ráðherrar, skólastjóri, gallharðir Unitet aðdáendur og bæjarstjóri voru meðal þeirra sem mættu til leiks þegar Lífshlaupið var ræst í morgun.

Þetta er þriðja árið sem Lífshlaupið fer fram en um er að ræða þriggja vikna átaks- og hvatningaverkefni á vegum Íþróttasambands Íslands. Og markmiðið er auðvitað að fá sem flesta til að hreyfa sig.

Átakið stendur yfir frá 3. til 23.febrúar og hafa þegar 666 lið frá 274 vinnustöðum og 191 bekkur frá 29 grunnskólum skráð sig til leiks, en skráningin fer fram inni á www.lifshlaupid.is

Meðal þeirra sem riðu á vaðið í laufléttri lífshlaupsþraut í Sjálandsskóla í morgun voru ráðherrar, forstjóri Lýðheilsustöðvar, bæjarstjóri Garðabæjar og skólastjóri Sjálandsskóla – og svo auðvitað krakkarnir sem gáfu ekkert eftir í átökunum við palla, sandpoka og armbeygjugrindur.

Óvenju hátt hlutfall Línu langsokka vakti athygli sem og eitilharður félagi þeirra í Manchester Unitet galla, og er ljóst að ekkert er upp á hreyfingu þess fjörlega fólks að klaga. 


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert