Í kröppum dansi í Dynjanda

Ísklifur getur tekið á taugarnar. Það fékk Rúnar Óli Karlsson að reyna þegar hann klifraði upp ísilagðan Fjallfoss í  Dynjanda í Arnarfirði ásamt félaga sínum um helgina.

Rúnar veit ekki til þess að fossinn hafi áður verið klifinn að vetrarlagi enda ekki oft sem hægt er að komast akandi að honum á þessum árstíma. Því ákváðu þeir félagar að láta slag standa þegar þeim gafst tækifæri til þess um helgina.

Klifrið gekk vel framan af, allt þar til stórt ísstykki gaf sig svo engu munaði að Rúnar færi með því niður tugi metra. Aðeins ein skrúfa var í tauginni fyrir neðan Rúnar þegar ísinn gaf sig svo það varð honum til happs að ná taki á ísblokk til hliðar við stykkið sem hrundi.

Þeir félagar kláruðu engu að síður klifrið og voru ekki nema klukkutíma upp þá 120 metra sem fossinn er, en ákváðu að fara aðra og lengri leið niður, eftir það sem á undan er gengið. Rúnar bætir því við að þekking og reynsla sé mikilvægasta veganestið í ísklifri sem þessu og því ættu óreyndir ekki að reyna að leika þetta eftir. 


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert