Ísland vel undir aðild búið

Höfuðstöðvar Evrópusambandsins í Brussel.
Höfuðstöðvar Evrópusambandsins í Brussel. Reuters

Ísland er að mörgu leyti vel búið undir aðild að Evrópusambandinu, einkum á þeim sviðum, sem Evrópska efnahagsvæðið nær til. Hins vegar þarf landið að breyta löggjöf sinni umtalsvert á nokkrum sviðum komi til aðildar, einkum á sviðum sjávarútvegs, landbúnaðar og byggðaþróunar, umhverfismála, frjáls flæðis fjármagns og fjármálaþjónustu.

Þetta kemur m.a. fram í áliti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, sem birt var í dag um aðildarumsókn Íslands en þar er mælt með því að hafnar verði aðildarviðræður við Íslendinga. Ráðherraráð Evrópusambandsins verður að fallast á þessa tillögu áður en aðildarviðræður geta hafist.

Í skýrslu framkvæmdastjórnarinnar segir, að Ísland sé þingbundið lýðveldi með djúpar lýðræðisrætur. Stofnanir séu virkar og þekki valdmörk sín. Þá sé stjórnskipun Íslands stöðug og borin sé virðing fyrir lögum og mannréttindum.

Íslensk stjórnvöld þurfi þó að gera ráðstafanir til að styrkja sjálfstæði dómstóla, einkum varðandi skipun dómara og koma á reglum til að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra. 

Framkvæmdastjórnin segist í heild telja að landið uppfylli þau pólitísku aðildarskilyrði, sem sett voru af Evrópuráðinu í Kaupmannahöfn 1993.  Varðandi efnahagsmálin megi líta á Ísland sem virkt markaðshagkerfi þótt virkni markaðarins hafi skerst verulega vegna ójafnvægis í peningamálum og veikleika fjármálaeftirlitskerfisins, sem alþjóðlega fjármálakreppan hafi aukið á. 

Vegna fjármálahrunsins hafi fjárlagahalli verið 14,4% af vergri landsframleiðslu á síðasta ári og skuldir hins opinbera 130% af landsframleiðslu, þar af sé um þriðjungur Icesave-skuldir.  Grípa þurfi til umfangsmikillar endurskipulagningar til að koma böndum á þetta ástand. 

Einngi segir framkvæmdastjórnin, að fyrir fjármálakreppuna hafi Ísland getað staðist þrýsting frá samkeppni og markaðsöflum á Evrópska efnahagssvæðinu. Því ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu, að Ísland geti brugðist við þessum öflum með sama hætti innan Evrópusambandsins svo framarlega sem það framfylgi nauðsynlegri stefnubreytingum og komi á kerfisumbótum.   

Skýrsla framkvæmdastjórnar ESB um aðild Íslands

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert