Eldur í spónaframleiðslu í Hveragerði

Húsið var orðið fullt af reyk er lögregla kom á …
Húsið var orðið fullt af reyk er lögregla kom á staðinn. Morgunblaðið/Guðmundur Karl

Betur fór en á horfðist þegar eldur kom upp í spónaframleiðslu í Hveragerði í nótt. En miklar reyk- og sótskemmdir urðu á þessu 1.000 fm iðnaðarhúsnæði sem var fullt af reyk er lögregla kom þar að.

Eldsins varð vart rétt fyrir klukkan eitt í nótt og var það starfsmaður Securitas, sem var á eftirlitsferð um aðrar byggingar, sem sá reyk koma frá húsinu. Hann hafði sambandi við  lögreglu sem kallaði til slökkvilið Hveragerðis er hún sá að húsið fullt af reyk.

Vel gekk að ráða niðurlögum eldsins í þessu 1.000 fm iðnaðarhúsnæði, sem hýsir spónaframleiðslu og var því nógur eldmatur í húsinu. Miklar reyk- og sótskemmdir urðu þó á byggingunni, auk þess sem kominn var talsverður hiti í veggi. Litlar skemmdir urðu hins vegar á vélabúnaði.

Upptök eldsins liggja ekki fyrir, en að sögn lögreglunnar á Selfossi, er ekki talið útilokað að kviknaði hafi í út frá rafmagni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert