500 yfirgefið heimili sín

Undir Eyjafjöllum. Íbúum þar var gert að yfirgefa heimili sín.
Undir Eyjafjöllum. Íbúum þar var gert að yfirgefa heimili sín. Gísli Sigurðsson

Um 500 manns í Rangárþingi eystra yfirgáfu heimili sín í nótt vegna gossins í Eyjafjallajökli. Lögregla og björgunarsveitarmenn unnu að rýmingu. Auk þess var stuðst við svonefnt eftirfarakerfi, þar sem rýming er í höndum íbúa sjálfra og því svo fylgt eftir með talningu að allir skili sér. 

Rýming nær til bæja undir Eyjafjöllum, Landeyjum og í Fljótshlíð; það er neðan þjóðvegarins sem liggur inn sveitina og til allra sem búa innan við bæinn Deild, sem er fyrir miðri sveit.

„Þetta hefur gengið fumlaust fyrir sig,“ sagði Kjartan Þorkelsson sýslumaður á Hvolsvelli í samtali við Mbl. Í byrjun sl. viku var fundað með íbúum vegna aðsteðjandi hættu og telur sýslumaður fólk búa að því. Þá hafi viðbrögð verið þaulæfð á almannavarnaræfingunni Bergrisanum sem haldin var 2006.

Vegatálmanir eru skammt austan við Selfoss en lögreglanlokaði fyrir alla umferð austur á bóginn strax og fréttir af gosinu bárust. „Við reynum með þessu að draga sem mest úr umferð, en ef fólk á sannarlega erindi til dæmis í uppsveitirnar eða austur í Rangárvallasýslu leyfum við því að sjálfsögðu að fara. Þetta fyrirkomulag verður uns annað verður ákveðið,“ sagði varðstjóri á Selfossi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert