Á heimleið frá Bandaríkjunum

Vél Icelandair er að leggja af stað frá Boston og …
Vél Icelandair er að leggja af stað frá Boston og kemur til Íslands undir kvöldið. Rax / Ragnar Axelsson

Flugvél Icelandair leggur af stað til Íslands frá Boston kl. 16:30 að íslenskum tíma, en næturfluginu heim var frestað eftir að fregnir af eldgosinu í Eyjafjallajökli bárust. Þótti slíkt varlegast, meðal annars vegna hættu á öskufalli.

„Við vorum komin út í vél í gærkvöldi og á leiðinni heim þegar við fréttum að byrjað væri að gjósa. Við biðum heillengi úti í vél meðan afráðið var hvað gera skyldi, en síðan komu skilaboð sem mér skilst að hafi verið frá stjórnendum flugfélagsins, um að við skyldum halda kyrru fyrir. Núna er klukkan hálf tíu að morgni hér og núna rétt áðan var flugstjórinn að tilkynna okkur að við skyldum fara út á völl,“ sagði Sif Hilmarsdóttir flugfreyja hjá Icelandair í samtali við Mbl. fyrir stundu.

Sif hefur starfað sem flugfreyja í tólf ár. „Ég hef lent í ýmsu óvenjulegu í þessu starfi en engu þessu líku. Farþegum, sem komnir voru út í flugvél en urðu að yfirgefa hana vegna eldgoss á Íslandi, var óneitanlega brugðið en allir tóku þessu þó með ró og stillingu,“ sagði Sif.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert