Ég átti von á þessu

Klara Valgerður Brynjólfsdóttir, Brynjólfur Bjarnason, Reyni Ari Þórsson, Sindri Snær …
Klara Valgerður Brynjólfsdóttir, Brynjólfur Bjarnason, Reyni Ari Þórsson, Sindri Snær Brynjólfsson, Hrafnhildur Valgarðsdóttir og Gabríel Björnsson. mbl.is/Rúnar

Gabríel Björnsson, ungur piltur, var í fastasvefni þegar hann var vakinn um miðnætti og sagt að fara í fötin því gos væri hafið í Eyjafjallajökli. Hann tók fregnunum með ró. „Ég átti von á þessu," sagði Gabríel þegar hann var spurður hvort honum hefði brugðið við fregnirnar.

Gabríel og aðrir á bænum Lindartúni í  Vestur-Landeyjum, skammt frá Njálsbúð, yfirgáfu heimili sitt í nótt og gerðu ráð fyrir að gista í Hvolsskóla á Hvolsvelli.

Líkt og aðrir bændur í héraðinu hefur Brynjólfur Bjarnason, bóndi á Lindartúni, áhyggjur af búpeningnum, fé og hrossum, í þessu tilfelli. Líkt og fyrir þau hafði verið lagt yfirgáfu þau bæinn án tafar. „Við tókum ekki neitt. Nema köttinn,“ sagði Brynjólfur. „Þetta bar ekkert öðruvísi að en ég ímyndaði mér, en ég hafði ímyndaði mér að þetta myndi ekki gerast," sagði hann. „En svona gerast hlutirnir."

Gabríel var hins vegar viss um að gosið kæmi. „Ég átti von á þessu. Út af jarðskjálftunum," sagði Gabríel sem er lengst til hægri á myndinni.

Ómögulegt er að vita hversu langvinnt eða öflugt gosið verður. Brynjólfur, líkt og aðrir, vonast til að gosið leiði ekki til flóðs í byggð. Lindartún stæði sérlega illa að vígi við þær aðstæður því bærinn er á láglendi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert