Engir Íslendingar í lestunum

Gríðarleg öryggisgæsla er við lestarstöðvar í Moskvu
Gríðarleg öryggisgæsla er við lestarstöðvar í Moskvu Reuters

Bjarni Sigtryggsson, sendifulltrúi í íslenska sendiráðinu í Moskvu, segir að ekkert bendi til þess að Íslendingar hafi verið í lestunum þar sem sprengjurnar sprungu í morgun. Rússneskur starfsmaður íslenska sendiráðsins, Irina Bolshakova, slapp hins vegar naumlega.

Að sögn Bjarna eru mjög fáir Íslendingar búsettir í Moskvu og virðist sem enginn þeirra hafi verið á lestarstöðvunum þar sem tilræðin voru framin í morgun. Eins sé ólíklegt að einhverjir íslenskir ferðamenn hafi verið á ferðinni í lestunum enda mikill annatími þar sem fólk var á leið til vinnu í miðborginni.

Bolshakova var svo heppin ef það má orða það þannig að sporvagninn sem hún kom með á lestarstöðina var seinn fyrir þannig að það var búið að loka lestinni er hún kom þangað.

Bjarni segir að búast megi við því að allt öryggiseftirlit verði hert til muna í Moskvu í kjölfarið og á von á því að lögregla fundi með erlendum sendiráðum síðar í vikunni þar að lútandi.

Símasamband er slæmt í Moskvu og segir Bjarni að það skýrist væntanlega af því að rannsókn stendur yfir á símtölum. Leigubílstjórar voru fljótir að nýta sér ástandið í Moskvu í morgun og þarf að greiða þrefalt til fjórfalt gjald fyrir aksturinn enda liggur starfsemi jarðlestakerfis borgarinnar að hluta niðri.

Að minnsta kosti 37 létust í tilræðunum í jarðlestum á tveimur lestarstöðvum í miðborg Moskvu í morgun. Tugir eru slasaðir og þar af fjölmargir alvarlega. Er því búist við tala látinna eigi eftir að hækka er líða tekur á daginn.

Engar lestir ganga á rauðu línunni eftir árásirnar
Engar lestir ganga á rauðu línunni eftir árásirnar HO
Park Kultury
Park Kultury DENIS SINYAKOV
Lubyanka
Lubyanka ALEXANDER NATRUSKIN
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert