Top Gear ók upp á heitt hraun

Top Gear menn óku upp á nýrunnið hraunið á bíl …
Top Gear menn óku upp á nýrunnið hraunið á bíl með vatnskældum dekkjum. Samt kviknaði í einu dekkinu. Allt fór þó vel. RAX/Ragnar Axelsson

Leiðangursmenn breska bílasjónvarpsþáttarins Top Gear óku jeppa, sérstaklega breyttum, upp á nýrunnið hraun á Fimmvörðuhálsi í gær. Þótt dekkin væru kæld með vatni kviknaði samt í einu þeirra við hraunaksturinn. Leiðangursmenn komu heilu og höldnu af jöklinum í nótt eftir ævintýraferð.

Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur fór að gosstöðvunum með Top Gear. Hann sagði að sami gangur hafi verið í gosinu þegar þau fóru að ofan í nótt og þegar þau komu í fyrrinótt.

„Í gær var frábært veður. Við fengum allra versta veður á Íslandi og það allra besta,“ sagði Haraldur. Leiðangurinn fór á jökulinn í fyrrinótt í afar slæmu veðri og tók ferðin upp frá Sólheimum um tíu klukkustundir. Hann sagði að Top Gear leiðangurinn hafi viljað fá slæmt veður og orðið að ósk sinni.

Létu ekki deigan síga í óveðrinu

„Ég hef unnið með mörgum sjónvarpshópum en aldrei með jafn kraftmiklum mönnum og þessum. Þeir voru alltaf að. Þótt það væri brjálaður stormur höfðu þeir einn jeppann á alltaf á undan bílnum sem við James May, kynnir þáttanna, vorum í. Þeir voru alltaf með opinn afturgluggann og stóra sjónvarpsvél. Það var stór skafl inni í bílnum hjá þeim. En þeir hættu aldrei að taka!"

Leiðangurinn naut aðstoðar björgunarsveitar úr Kópavogi og farið var eftir öllum öryggisreglum, að sögn Haraldar. Top Gear teymið var að taka upp þátt í næstu syrpu en áhorfendur þáttanna telja um 350 milljónir um allan heim. Þátturinn mun snúast um gosleiðangurinn.

„Þetta voru allt breyttir bílar frá Arctic Trucks. Þeir voru með bíl sem Bretarnir höfðu ekið á Norðurpólinn. Þeir höfðu breytt honum til að fara með hann í eldgos. Það var vatnskæling á dekkjunum þannig að þeir gátu ekið upp á heitt hraun.

Það gekk þangað til kviknaði í einu dekkinu en þeir komust niður aftur, það var bara að stoppa ekki. Þetta var smá tilraun. Þeir höfðu líka sett álplötu yfir bílinn til að verja hann gjóskufalli. Það gekk líka,“ sagði Haraldur.  Hann sagði að þetta hlyti að vera draumabíll jöklafræðingsins!

Mikill brennisteinn á nýja fellinu

Haraldur sagði að gamli gígurinn sé nú alveg dauður. Þar standi nú myndarlegt fjall eða fell. Skemmtilegt hafi verið að sjá brennisteinsskán efst á toppinum sem helst hafi líkst mygluðum rjóma, gulgræn að lit.

Haraldur taldi að þessi „rjómaskreyting“ hafi verið eitt það merkilegasta sem þau sáu í gær. Hann sagði að brennisteinninn muni skolast í burtu um leið og fer að rigna.

Nýja sprungan er nú alveg tekin við og um 90% af virkninni er í einum gíg á sprungunni. Sá er í suðurendanum, næst gamla gígnum. Nýi gígurinn er klofinn í tvennt af hafti. Hann sagði að hraunið sem rennur úr gígnum sé sérstaklega glæsilegt á nóttinni. Það rennur nú til norðvesturs og niður í Hvannárgil. 

„Þetta er apalhraun og það er bara brúnt og svart á daginn. Á nóttinni sér maður að það er allt glóandi, fullt af glóandi götum,“ sagði Haraldur. Hann sagði að slurkur af hrauni hafi runnið út í drögin að Hvannárgili yfir fannir. Þá myndaðist mikill gufustrókur vegna snjóbráðar, en engar verulegar sprengingar.

Enginn var við gosstöðvarnar þegar leiðangurinn kom upp um klukkan fjögur í fyrrinótt. Um miðjan dag í gær fóru ferðamenn að koma á staðinn og var þar nokkuð af fólki í gærkvöldi. 

Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur við eldstöðina á Fimmvörðuhálsi.
Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur við eldstöðina á Fimmvörðuhálsi. Ragnar Axelsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert