Með 251 milljón í laun á mánuði

Lárus Welding fyrrverandi forstjóri Glitnis.
Lárus Welding fyrrverandi forstjóri Glitnis. Kristinn Ingvarsson

Lárus Welding var á árinu 2007 með 251,6 milljónir í laun á mánuði, en á því ári gerði hann starfslokasamning við Landsbankans og réði sig til starfa hjá Glitni. Rannsóknarnefndin gagnrýnir harðlega launahvatakerfi bankanna.

„Bankastjórnandi sem til dæmis hefur einungis einn tíunda hluta launa sinna í formi grunnlauna eða fastra launa en 90% sem hlutfall af árangri fyrirtækisins mun óhjákvæmilega einhvern tíma lenda í þeirri aðstöðu að þurfa að velja á milli þess að taka bókhaldslega ákvörðun sem leiðir til þess að hann fái greidd hærri samningsbundin laun eða velja rekstrarlegan og/eða bókhaldslegan kost í rekstri bankans sem ekki tryggir honum jafn há laun,“ segir í skýrslunni.

Í skýrslunni segir að fjárfestingum fylgi frekari skuldsetning og hjá fjármálafyrirtækjum sem þegar eru mjög skuldsett sé varasamt að hvetja stjórnendur áfram með vísan í aukna arðsemi sem aðeins verði uppfyllt með meiri skuldsetningu svo vel sé. Slíkt hvatakerfi sé líklegt til þess að ýta félaginu fram af brúninni, því líkur séu á því að stjórnendurnir muni gera það sem þeim sé uppálagt og kerfið hvetur þá til. Sigurjón Þ. Árnason, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans, sagði í skýrslutöku fyrir rannsóknarnefnd Alþingis hefði það hefði jafngilt því að segja starfinu upp að fara harkalega gegn vilja stærstu hluthafa.

Hár kostnaður við samninginn við Lárus

Rannsóknarnefnd Alþingis telur að kostnaður Glitnis við að gera fimm ára ráðningarsamning við Lárus Welding hafi numið 5,1 milljarði. Samningurinn var gerður í september árið 2007. Það ár var Lárus með 84,3 milljónir í laun á mánuði hjá Glitni og 167,3 milljónir á mánuði hjá Landsbankanum.

Lán til starfsmanna Glitnis námu mest í september 2008 55 milljörðum. Þetta var um 17% af eiginfjárgrunni bankans.

Árið 2007 var Sigurjón Þ. Árnason bankastjóri Landsbankans með tæplega 20 milljónir á mánuði í laun. Athygli vekur að sjö aðrir yfirmenn hjá Landsbankanum voru með hærri laun en Sigurjón þetta ár. Skýringar á þessu munu vera bónusgreiðslur til þeirra.

Meginreglan hjá Landsbankanum átti að vera að greiða bónus í takt við góðan árangur. Í skýrslunni  kemur hins vegar fram að bónus var stundum greiddur til starfsmanna þó að tap væri á rekstri. Þetta á t.d. við um fyrirtækjaráðgjöf Landsbanka. Einn starfsmaður bankans sagði frá því að hann hefði oftar en einu sinni fengið símtal um að hann ætti að fá bónus þó að ekkert kæmi fram í launasamningi hans að hann ætti að fá bónus.

Í skýrslunni kemur fram að þremur mánuðum, frá september til nóvember 2007, voru tekjur Verðbréfasviðs Landsbankans ríflega 178 milljónir kr. Bónusgreiðslur til starfsmanna námu 194 milljónum kr. fyrir sama tímabil. „Um fimmtungur þessara bónusgreiðslna kom í hlut forstöðumanns verðbréfamiðlunarsviðs, Steinþórs Gunnarssonar, samtals 45,1 milljón kr. (47,5 á verðlagi 2008). Samtals voru Steinþóri greiddar um 213 milljónir kr. í bónusgreiðslur árið 2007 en verðbréfamiðlun hafði samtals um 2,5 milljarða kr. í tekjur á sama ári.“

Forstjórinn á 159-földum launum meðalbankamanns

Árið 2007 námu heildarlaun forstjóra Kaupþings tæplega 159-földum launum meðalstarfsmanns í bankanum. Hreiðar Már Sigurðsson var á árinu 2007 um 75,5 milljónir á mánuði.

„Starfsmannalán Kaupþings voru af þeirri stærðargráðu að ljóst var að lántakendurnir væru vart borgunarmenn fyrir þeim ef hlutabréf Kaupþings lækkuðu verulega í verði, hvað þá ef Kaupþing yrði gjaldþrota og hlutabréfin þar með verðlaus,“ segir í skýrslunni.

„ Hluthafafundur Kaupþings samþykkti þá tilhögun í mars 2004 að bankinn myndi lána starfsmönnum fyrir allt að 9% af eigin bréfum Kaupþings. Ástæða þess að hluthafafundur samþykkti að veita starfsmönnum sínum slík lán var að sögn formanns starfskjaranefndar, Ásgeirs Thoroddsen, en hann bar tillöguna upp á hluthafafundinum, sú að lánafyrirgreiðslunni hefði verið ætlað að binda saman hag hluthafa og stjórnenda. Það verður að teljast sérlega veikburða samræming hagsmuna ef starfsmenn njóta alls hagnaðar meðan vel gengur en hluthafar sitja uppi með alla áhættuna og þar með gríðarlegt tap ef illa gengur.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert