Eldgosið í rénun?

Svona var gosmökkurinn séð frá bænum Hemlu.
Svona var gosmökkurinn séð frá bænum Hemlu. mbl.is/Golli

Jarðeðlisfræðingur hjá Háskóla Íslands segir, að vísbendingar séu um að eldgosið í Eyjafjallajökli, sem hófst aðfaranótt miðvikudags, sé í rénun. Nú sé fylgst grannt með því hvort Katla í Mýrdalsjökli fylgi í kjölfarið og gjósi. Enn eru þó engar vísbendingar um að Katla sé að vakna til lífsins.

AFP fréttastofan hefur eftir Sigrúnu Hreinsdóttur, jarðeðlisfræðingi hjá Jarðvísindastofnun HÍ, að dregið hafi úr hraunrennsli í gosinu og búast megi við að brátt muni draga úr gosvirkninni. 

Sigrún segir, að svo virðist sem hraunið renni úr kvikuhólfi á um það bil eins kílómetra dýpi. „Þetta er eins og kvikublaðra, sem nú er verið að kreista og er að tæmast," segir hún. Hins vegar sé ekki vitað hve mikil kvika sé í hólfinu og því sé óvíst hve langan tíma það tekur að tæma það. 

Haft er eftir Sigrúnu, að hraunkvika, sem rennur djúpt undir eldfjallinu, hafi komist inn í kvikuhólfið undir toppgíg Eyjafjallajökuls og þess vegna hafi orðið sprengigos.  

Sigrún segir líklegt, að fleiri slík kvikuhólf séu undir eldfjallinu og því geti samskonar atburðarás orðið síðar ef kvikan djúpt í jörðu kemst í snertingu við þau.  Hugsanlega gæti gosið við rætur eldfjallsins einnig.

„Kvikan leitar í raun að auðveldustu útgönguleiðinni. Í mars var auðveldasta leiðin upp á Fimmvörðuhálsi og nú var hún undir eldfjallinu miðju."

Sérfræðingar hafa varað við því, að eldgosin í Eyjafjallajökli kunni að vekja Kötlu, sem er í nágrenninu og gaus síðast 1918. Hún segir að sérfræðingar fylgist því grannt með Kötlu en engar vísbendingar hafi enn borist um að þar sé gos í vændum. Katla hefur hins vegar oft gosið 1-2 árum eftir að gosið hefur í Eyjafjallajökli. 

„Það gæti gerst eftir tvo mánuði eða það gæti gerst á morgun," segir Sigrún Hreinsdóttir.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert