Gosmökkur í 31 þúsund feta hæð

Gosmökkurinn rís uppúr skýjunum, enn hærra en undanfarna daga.
Gosmökkurinn rís uppúr skýjunum, enn hærra en undanfarna daga. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Meiri ofsi virðist í eldgosinu í Eyjafjallajökli. Upplýsingar hafa borist í kvöld um að gosmökkurinn sé kominn í 31 þúsund feta hæð en í dag var hann í um 20 þúsund fetum.

Aukin skjálftavirkni undir Eyjafjallajökli bendir til þess að nýtt efni sé að koma djúpt að upp undir fjallið og GPS-mælingar benda til útþenslu á ný. Útþenslan er ekki mikil enn sem komið er. Ekkert bendir til þess að gosi sé að ljúka. Þetta er meðal þess sem kemur fram í stöðuskýrslu Veðurstofunnar og Jarðvísindastofnunar í kvöld.

Sigurlaug Hjaltadóttir, jarðeðlisfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir ekki enn vitað hvort upp sé að koma það efni sem fyrir var eða nýja efnið sem vísbendingar hafa verið um að væri að koma djúpt að fjallinu.

Á minnisblaðinu kemur fram að vitað er um gjóskufall á Sólheimaheiði, við Hjörleifshöfða og í Álftaveri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert