Harmar sölu til útlendinga

Jón Hjartarson, forseti bæjarstjórnar Árborgar.
Jón Hjartarson, forseti bæjarstjórnar Árborgar. Sigurður Jónsson

Sala Geysis Green Energy (GGE) á ríflega 52% hlut í HS Orku til Magma Energy er Jóni Hjartarsyni, forseta bæjarstjórnar Árborgar, lítt að skapi. Jón situr fyrir hönd Vinstri-grænna í bæjarstjórn Árborgar, en hann var meðal þeirra bæjarfulltrúa sem samþykktu að selja 1% hlut sveitarfélagsins til GGE.

„Aðstæðurnar í dag eru ekki sambærilegar og þá. Mig óraði ekki fyrir að dæmið myndi spilast út með þessum hætti. Það hvarflaði ekki að neinum að til stæði að selja útlendingum HS Orku á þessum tíma," segir Jón í samtali við Morgunblaðið.

„Málið snýst aðallega um að orkuauðlindir Íslands séu í eigu Íslendinga. Ég er ekki endilega á móti því að orkufyrirtæki séu í eigu einkaaðila, en helst hugnast mér að slík fyrirtæki liggi hjá ríkinu eða sveitarfélögum," segir hann.

Jón segir að tilgangur sölu Árborgar á hlutnum í HS Orku hafi verið að leysa inn söluhagnað á rafmagnsveitu Árborgar til HS Veitna. „Þegar við seldum rafmagnsveituna til HS Veitna fengum við meðal annars borgað með 1% hlut í HS Orku. Með sölunni á hlutnum í HS Orku til GGE vorum við einfaldlega að ná í þá peninga sem við fengum fyrir rafmagnsveituna. En það má líka segja að það sé lítið gagn því að eiga 1% hlut í fyrirtæki eins og HS Orku, menn hafa varla mikil áhrif á stefnuna með því. Það var ekki hluti af stefnu Árborgar að eiga hluti í orkufyrirtækjum út um allt land, við vorum bara að hugsa um hag Árborgar," segir Jón í samtali við Morgunblaðið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert