Fyrsti sláttur í öskufjúki

Sláttur er hafinn í Landeyjum. Myndin er úr safni.
Sláttur er hafinn í Landeyjum. Myndin er úr safni.

Fyrsti sláttur hófst í gærkvöldi hjá Sævari Einarssyni bónda á Stíflu í Vestur-Landeyjum. Ástæðan er ekki góð spretta heldur tilraun sem ábúendum á Stíflu fannst þess virði að prófa. „Það er draumurinn um það að seinni sláttur verði heilnæmari fyrir vikið, því mér líst ekkert á öskurykið sem er í grasinu og vona að þetta verði kannski betra næst með þessu," segir Sævar.

Allajafna hefur fyrri sláttur hafist um miðjan júní á Stíflu og Sævar segir að vel hefði mátt bíða viku í viðbót. „Við ætlum bara að taka af tveimur stykkjum og sjá svo til með restina enda er ekkert komið gras svona heilt yfir, þetta eru nýræktir."

Sævar segist ekki vita til þess að sláttur sé hafinn á nágrannabæjum, en á hinn bóginn sjáist heldur ekki almennilega á milli bæja vegna öskuroks. „Það eru rykmekkirnir á eftir okkur þegar maður er að slá og raka þessu, þannig að grasið er mjög mengað. Askan fýkur hérna yfir og sést varla á milli bæja þannig að ég er voða smeykur um að þetta skipti engu máli og það verði alveg jafnmengaður seinni sláttur, enda er þetta ofan í jörðinni og þyrlast upp, en okkur fannst þetta þess virði að prófa."

Hann gerir ráð fyrir að taka sýni til að reyna að finna út hvort flúormengun sé í heyinu. Hinsvegar hafi hann ekki mikla þekkingu á þessu og hafi ekki getað fundið neinar rannsóknir eða upplýsingar um hvað skynsamlegast væri að gera í stöðunni. Hann segir ástandið ansi hvimleitt til lengdar.

„Þetta er náttúrulega bara ógeð. Við höfum ekki sett beljurnar út á beithagann og ég verð að þvo á mér lappirnar á hverju einasta kvöldi. Þetta er bara í öllu og maður ber þetta með sér inn í öll hús. Þó held ég að maður geti ekki kvartað miðað við hvernig þetta er undir Eyjafjöllum þar sem öskufallið var af einhverju ráði, hérna fengum við í rauninni bara sýnishorn af þessu."

Dimmt var yfir Landeyjum suma daga í maí þegar öskunni …
Dimmt var yfir Landeyjum suma daga í maí þegar öskunni rigndi niður. mynd//Unnur María Sævarsdóttir
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert