Íslenskur silungur í New York

Ben Pollinger, yfirmatreiðslumaður á sjávarréttaveitingastaðnum Oceana í miðborg New York reynir eftir megni að hafa íslenskt hráefni á boðstólum á staðnum. Nú er hægt að gæða sér á íslenskum silungi þar.

Pollinger, sem hefur komið til Íslands á Food and Fun matarhátíðina, segir að hann hafi einnig boðið upp á íslenska risarækju og þorsk á Oceana. Þá hafi hann prófað sig áfram með að nota íslenska skyrið í matargerð.

„Ég vildi einnig að við gætum fengið íslenskt smjör hér í New York því það er einstakt," segir hann við mbl sjónvarp. „Í smjörinu og skyrinu finnur maður bragð af íslenskri náttúru. Það er eitthvað einstakt við það."

Pollinger segir að vaxandi vitund sé í Bandaríkjunum og New York sérstaklega um sjálfbærni og lífræna ræktun. Því ættu íslenskar landbúnaðarvörur að geta átt framtíð fyrir sér á þeim markaði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert