Ranglega haft eftir Björk

Björk Guðmundsdóttir
Björk Guðmundsdóttir Eggert Jóhannesson

Björk Guðmundsdóttir segir rangt haft eftir sér í frétt AFP í gær, þar sem fram kom að hún teldi Magma Energy vinna með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og ágirnast allar orkuauðlindir landsins.

Hún segist einungis hafa svarað tveimur spurningum um Magmamálið sem hafi læðst inn á blaðamannafundi vegna frumsýningar á kvikmyndinni um Múmínálfana.

„Ég sagði að það hefði oft gerst að Magma komi til landa sem hafi þurft á hjálp AGS að halda. Löndin væru þá á barmi gjaldþrots og Magma keypti aðgang að auðlindum á mjög lágu verði.“

Þá segir söngkonan að blaðamanni hljóti að hafa misheyrst, hún hafi ekki sagt að Magma hefði sýnt fimm orkufyrirtækjum áhuga, heldur fimm öðrum stöðum á landinu.

Í yfirlýsingu til mbl.is segir Björk að hún hafi svarað spurningum 200 blaðamanna um Múmínálfana í 4 klukkustundir og svör hennar um Magmamálið hafi skolast til.

Yfirlýsing Bjarkar:

„Af gefnu tilefni vil ég leiðrétta nokkra hluti.

Í gær var ég í Helsinki og svaraði spurningum 200 blaðamanna um múmínálfanna í 4 klukkustundir.

Á blaðamannafundinum læddust inn 2 spurningar um Magmamálið.

Þegar ég síðan kíkti á netið í dag sá ég að sum svörin höfðu skolast til.

Málið er nógu flókið og umdeilt fyrir, að ekki sé farið með rangt mál í ofanálag.

Hér koma leiðréttingar á aðal misskilningunum:

1. Ég sagði ekki að ég teldi að Magma og AGS væru að vinna saman. Ég sagði að það hefði oft gerst að Magma komi til landa sem hafi þurft á hjálp AGS að halda. Löndin væru þá á barmi gjaldþrots og Magma keypti aðgang að auðlindum á mjög lágu verði.

2. Ég sagði ekki að Magma ætlaði að kaupa upp allar orkuauðlindir landsins. Ég sagði að Magma hefði haft samband við allaveganna fimm aðra staði á landinu. Og var þá að tala um sýndan áhuga fyrirtækisins á Hrunamannaafrétti, Öræfum, Reykjahlíð, Vogum, Bjarnarflagsvirkjun, Kerlingafjöllum og Krísuvík. Mér sýnist að “5 places” hafi breyst í “5 energy companies”.



Með hlýju og fyrirfram þökk.


Björk.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert