36% ökumannanna undir áhrifum

Frá Veiðivötnum
Frá Veiðivötnum mbl.is/Árni Sæberg

Lögreglan á Selfossi fór í hálendiseftirlit í gærdag og fór meðal annars upp í Veiðivötn, þar sem margir eru við veiðar á þessum árstíma. Á veiðisvæðinu stöðvaði lögregla 44 ökumenn til að athuga ástand þeirra.

Af þessum 44 ökumönnum voru sextán búnir að neyta áfengis. Aðeins tveir þeirra höfðu þó drukkið svo mikið að svipta þurfti þá ökuleyfinu á staðnum. Hinum var öllum gert að hætta akstri og fengu þeir áminningu.

Um verslunarmannahelgina lenti þyrla Landhelgisgæslunnar á sama stað og  athugaði ökuhæfni veiðimanna í Veiðivötnum. Þá voru 40 ökumenn stöðvaðir en aðeins einn reyndist hafa drukkið og var hann sviptur ökuréttindum þá þegar. Ástandið var því mun verra í gær en um verslunarmannahelgina, að sögn lögreglunnar.

Gera má ráð fyrir því að 36% ökumanna við Veiðivötn í gær hafi verið undir einhverjum áhrifum áfengis og af því má ráða að veiðimenn séu ótrúlega kærulausir þegar kemur að þessu.

Lögreglan fór snemma í gær uppeftir og var við eftirlit þar til um klukkan tíu í gærkvöldi.

mbl.is/Júlíus
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert