Bildt var fjandsamlegur í garð Íslands

Carl Bildt.
Carl Bildt. Reuters

Haft er eftir Björgvin G. Sigurðssyni, fyrrverandi viðskiptaráðherra, í skýrslu um fall Landsbankans, að Carl Bildt, utanríkisráðherra Svíþjóðar, hafi verið fjandsamlegur í garð Íslands í kjölfar þess að neyðarlögin voru sett í október 2008. 

Í skýrslunni, sem Björn Jón Bragason, sagnfræðingur, gerði í fyrra að frumkvæði Björgólfs Guðmundssonar, fyrrverandi formanni bankaráðs Landsbankans, er rakinn aðdragandi þess að til skoðunar kom að Íslendingar fengju gjaldeyrislán hjá Rússum.

Fram kemur, að Tryggvi Þór Herbertsson, þáverandi efnahagsráðgjafi forsætisráðherra, hefði átt frumkvæði að því að  Íslendingar sæktu stórt lán til rússneskra stjórnvalda. Hann hafi haldið í Austurveg síðsumars
2008 og fundað með rússneskum ráðamönnum sem voru fúsir að lána. Hafi það verið Vladímír Pútín, forsætisráðherra, auk Alexei Kudrin, fjármálaráðherra Rússlands, sem höfðu forgöngu um þetta mál þar austur frá.

Alls var um að ræða fimm milljarða Bandaríkjadala, sem skyldu lánaðir með álagi upp á 30 til 50 punkta. Með þeirri upphæð hefði tekist að tvöfalda gjaldeyrisvaraforða Seðlabankans. Lánsbeiðnin var allflókin í framkvæmd, þar sem samþykkja þurfti afbrigði frá rússneskum lögum, en umræddir fjármunir voru skilgreindir í einhvers konar „velferðarsjóði“, sem var ætlaður til þjóðþrifamála innanlands. Málið tafðist að auki vegna stríðsrekstrar Rússa í Abkasíu.

Loks tilkynnti sendiherra Rússa íslenskum stjórnvöldum að allt væri klappað og klárt og sendi Seðlabankinn frá sér tilkynningu um lánið að morgni 7. október, daginn eftir að neyðarlögin svonefndu voru sett á Alþingi.

Babb í bátinn

Hins vegar virtist undir eins koma babb í bátinn og Rússar afturkölluðu lánsloforð sitt fljótlega. Segir í skýrslu Björns Jóns, að helsta ástæða þessa muni hafa verið mikill og skyndilegur gjaldeyrisskortur þar eystra. Lán Rússa til Íslendinga varð á endanum um 200 milljónir Bandaríkjadala, eða aðeins 4% af því sem upphaflega var ráðgert. 

Að kvöldi 7. október ítrekaði Davíð Oddsson, þáverandi seðlabankastjóri, andstöðu sína við aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í viðtali í Kastljósi Sjónvarpsins. Í skýrslunni segir hins vegar, að það hafi verið á færra vitorði að ríkisstjórnin hafði um líkt leyti tekið ákörðun um að leita á náðir sjóðsins og átti að tilkynna á blaðamannafundi Geirs H. Haarde og Björgvins G. Sigurðssonar í Iðnó.

Haft er eftir Björgvin í skýrslunni, að hann hafi undrast það á umræddum fundi að Geir minntist ekki á umsókn um aðstoð til  Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Eftir fundinn hefði hann komist að hinu sanna. Á leiðinni frá Stjórnarráðinu og út í Iðnó muni Davíð hafa hringt til Geirs og tjáð honum að alls ekki mætti leita til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Hann hefði
tryggt lán hjá Rússum og að auki myndu Norðurlöndin einnig lána Íslendingum. Hefði Davíð síðan sjálfur sent úr fréttatilkynningu um málið.

Ýtt undir ólgu

Björgvin segist telja, að íslensk stjórnvöld hafi glatað mikilvægum tíma með því að leita ekki undireins á náðir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Davíð hafi beitt sínum áhrifum til að fresta þeirri ákvörðun. Sú fimm vikna töf sem  fylgdi hefði gert vandamálin erfiðari viðfangs og ýtt, að mati Björgvins, undir þá ólgu sem kraumaði í samfélaginu.

Síðan segir í skýrslunni:

Skömmu eftir setningu neyðarlaganna fór Björgvin á fund Norðurlandaráðs í Helsinki. Þar mætt honum talsverður fjandskapur og skilaboðin voru skýr: Þið verðið að fara á „prógramm hjá IMF“, fyrr verður ekkert lánað.

Jonas Gahr Støre, utanríkisráðherra Noregs, virtist þó sýna Íslendingum samúð, en hann var undantekning. Í kringum 13. október var Björgvin síðan kominn á fund evrópskra utanríkisráðherra í St. Pétursborg og þá sem staðgengill Ingibjargar Sólrúnar. Ráðherrarnir snæddu saman kvöldverð í boði Valentinu Matwiyenko, borgarstjóra Pétursborgar, og sat Björgvin til borðs með henni, en sessunautar hans voru Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússa, og Carl Bildt, sænskur starfsbróðir hans.

Bildt mun hafa verið fjandsamlegur í garð Íslendinga. Hann var beinlínis „hostile“, eins og Björgvin kemst að orði. Björgvin bar Rússalánið í tvígang undir Lavrov sem eyddi talinu. Þá lögðu starfsmenn utanríkisráðuneytisins til að Björgvin ræddi við Bernard Kouchner, utanríkisráðherra Frakka. Þar var sama uppi á teningnum."

Bönkunum verður ekki bjargað

Í skýrslu Björns Jóns er farið yfir aðdraganda hruns Landsbankans árið 2008. Þar er m.a. fullyrt, að Davíð Oddsson hafi tjáð mönnum þetta sumar, að íslensku bankarnir hefðu verið „teknir yfir af glæpamönnum“, sem ætluðu sér að gera Ísland gjaldþrota.

Í skýrslunni segir, að fyrir liggi vitnisburðir þriggja manna úr ólíkum áttum sem áttu samtöl við Davíð í júní og júlí. Boðskapur Davíðs á þeim tíma var skýr: „Bönkunum verður ekki bjargað.“

Þá hefði hann einnig látið þess getið að hann stæði sjálfur persónulega í vegi fyrir því að tekið yrði stórt erlent lán til að styrkja  gjaldeyrisvaraforðann.

Skýrsla um fall Landsbankans 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert